140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[15:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um að samþykkja að ríkisstjórnin megi skrifa undir samning við Evrópusambandið um ákveðna styrki sem eiga að smyrja aðildarferli Íslands að Evrópusambandinu. Það gengur hálfbrösuglega. Ef við skoðum stefnu ríkisstjórnarinnar í aðildarviðræðum við Evrópusambandið er annar stjórnarflokkurinn eindregið fylgjandi inngöngu. Ég hygg að um 70% eða 80% af stuðningsmönnum Samfylkingarinnar í þjóðfélaginu séu hlynnt því en um 20% á móti, en nánast allir aðrir flokkar, bæði þingflokkar og stuðningshópar úti í bæ, eru eindregið á móti. Andstaðan er alveg sérstaklega mikil hjá Vinstri grænum og stuðningsmönnum þeirra, virðist vera, en samt halda þeir áfram í ferlinu.

Lengi vel stóð fyrrverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hv. þm. Jón Bjarnason, ötullega gegn samningnum og gegn þessum styrkjum og vildi meira að segja ekki taka á móti þeim. Hann stóð með þeim hætti gegn því ferli sem er í gangi en nú er búið að saga hann af og annar kominn í hans stað sem talinn er vera þægari þótt hann sé formaður Vinstri grænna á landsvísu og er það dálítið sérstakt.

En það eru fleiri. Hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson hélt hér ræðu og var ekki mjög hrifinn af þessu öllu og talaði um glerperlur og annað slíkt sem greiðslu og vísaði þar til samninga landnema við indíána um Manhattan til dæmis.

Ferlið er í gangi og Evrópusambandið áttar sig á því sem Coca Cola hefur vitað lengi að auglýsingar gera mikið gagn og miklar auglýsingar gera mikið gagn og verulega miklar auglýsingar og mikið fjármagn gera verulega mikið gagn. Nú á að sjá til hvað hægt er að smyrja Íslendinga þannig að þeir samþykki samninginn á endanum og einmitt á þeim tímapunkti þegar stuðningurinn verður hvað mestur út af áróðri eða vegna áfalla verður hoggið og lagt til að þjóðin samþykki. Þá gengur þetta allt í einu mjög hratt fyrir sig. Það er stefnan hjá þeim.

Evrópusambandið er mjög gott samband. Það var stofnað til að stuðla að friði í Evrópu og það hefur tekist, það er erfitt að finna jafnlangt friðartímabil og frá síðari heimsstyrjöld til dagsins í dag, alla vega ekki innan Evrópusambandsins. Það hefur reyndar verið ófriður í Evrópu en ekki innan Evrópusambandsins. Þar með hefur Evrópusambandið náð megintilgangi sínum. Það er dálítið athyglisvert, frú forseti, að þegar mesti óróinn var í sumar um björgunarskerminn fyrir Grikkland undirstrikaði Merkel einmitt það markmið sambandsins að viðhalda friði í Evrópu, að svo mikilvægt væri að viðhalda friði í Evrópu, hindra ófrið sem Þjóðverjar þekkja náttúrlega af mjög illri reynslu sem hefur sett verulegt mark á þýsku þjóðarsálina. Merkel sagði: Við verðum að fórna ýmsu fyrir frið í Evrópu og þar á meðal að greiða óskaplega fjármuni fyrir Grikkland.

Verið var að samþykkja aðild Króatíu að Evrópusambandinu nýverið, bara nú í vikunni. Það var reyndar ekki stór hluti þjóðarinnar sem samþykkti aðild, kosningaþátttakan var frekar dræm en hún var samþykkt með nokkuð góðum meiri hluta þeirra sem greiddu atkvæði. Evrópusambandið er að sjálfsögðu mjög gott fyrir Króatíu því að þar hefur heldur betur verið ófriður í gegnum tíðina, undanfarin ár, þannig að ég geri ráð fyrir að sú þjóð þrái að komast í friðinn sem hefur þó alla vega ríkt innan Evrópusambandsins.

Þessi hvati er ekki til staðar á Íslandi. Við höfum ekki verið plöguð af ófriði á Íslandi í gegnum aldirnar, ekki nema heimsstyrjöldin síðari kom hér rétt aðeins við og gerði okkur rík og það fórust vissulega nokkur skip en landið var ekki beinn aðili að stríðsátökum. Við þurfum því ekki að ganga í Evrópusambandið af þeirri ástæðu enda er allt öðru haldið að okkur. Talað er um að það auki samkeppni og annað slíkt. Aðildin að Evrópska efnahagssvæðinu hefur reyndar leitt allar þær reglur í lög sem þarf til að stuðla að samkeppni, innlánstryggingakerfi og annað slíkt, sumt er gott og annað er slæmt og minni ég þar á Icesave.

Enn er talað um að ná eigi einhverjum samningi við Evrópusambandið. Ég veit reyndar ekki um hvað því að ég held að það standi ekki til að Evrópusambandið gangi í Ísland heldur sé meiningin að Ísland gangi í Evrópusambandið og þá þurfum við að aðlagast þeim grunnreglum sem eru þar í gildi. Talað er um að skoða eigi í poka, eins konar nammipoka eins og krakkarnir kaupa, sjá hvaða nammi er í pokanum. Ég spyr: Ef það nammi sem er í pokanum er sérstaklega gott ætla menn þá að ganga í Evrópusambandið? Það væri gaman að heyra hv. þm. Jón Bjarnason, fyrrverandi hæstv. ráðherra, segja það í pontu að flokkur hans muni samþykkja aðild að Evrópusambandinu ef það er nógu gott sem er í pokanum.

Svo vil ég minna á að allt tal um að þjóðin greiði atkvæði um Evrópusambandið og aðild að Evrópusambandinu er alveg út í hött. Til þess þarf að breyta stjórnarskránni vegna þess að það er Alþingi, sá meiri hluti sem er á Alþingi hverju sinni eða sá meiri hluti sem flokksræðið smalar á Alþingi hverju sinni sem ræður því hvort Ísland gengur í Evrópusambandið, alveg sama hvað þjóðin greiðir atkvæði um. Það er staðreynd. Það er ekki búið að breyta stjórnarskránni þannig að það er það sem gildir. Ef mönnum sýnist að þessir styrkir, auglýsingar og annað slíkt hafi náð árangri eins og hjá Coca Cola — þar eru örugglega gerðar markaðsrannsóknir reglulega á því hvernig skoðanir breytast — munu menn slá til og leggja samninga fyrir þjóðina og ef þjóðin er vægt á móti getur þingheimur auðveldlega samþykkt aðild. Það merkilega er ef við horfum á núverandi stöðu, af hverju við sóttum um, að allir flokkar á Alþingi og hv. þingmenn þeirra eru á móti inngöngu í Evrópusambandið nema einn flokkur, Samfylkingin, sem er ekki einu sinni sá stærsti. Meiri hluti fyrir aðildarumsókninni náðist með því að múlbinda hv. þingmenn Vinstri grænna til að samþykkja hana. Þá var aðildarbeiðnin samþykkt þó að það sé sannarlega ekki meiri hluti fyrir henni á Alþingi. Það er hættulegt spil. Hv. þingmenn Vinstri grænna bera ábyrgð á því og þeir komast ekki undan þeirri ábyrgð. Nú á að fara að hella peningum hingað inn til að smyrja aðildarferlið.

Hvað gerist með þessa styrki? Í fyrsta lagi er fólki boðið til Evrópusambandsins og mjög margir íslenskir embættismenn sem sjá takmarkaða framavon á Íslandi sjá hver og einn miklu meiri framavon í Brussel. Sveitarstjórnarmönnum er sömuleiðis boðið í ferðir og þeim er sýnt hvað þetta er allt yndislegt. Margir forritarar og aðrir háskólamenn vinna á styrkjum frá Evrópusambandinu og menn vita nú yfirleitt hver borgar saltið í grautinn hjá þeim. Þannig eru höfð áhrif á fólk og svo bylja á okkur í sífellu sögur um hvað Evrópusambandið sé æðislegt og gott, að verðtrygging hverfi og vextir og verðlag lækki og ég veit ekki hvað og hvað. Það eru allt saman innantómar fullyrðingar vegna þess að verðlag breytist ekkert þótt við göngum í Evrópusambandið nema við ætlum að hleypa inn erlendum landbúnaðarvörum. Það breytist ekkert með verðtryggingu nema við breytum lögum þar um og það getum við gert ein og óstudd. Það er því í raun ekkert sem breytist nema við skiptum um mynt og tökum upp mynt sem er varla talin á vetur setjandi í Evrópu.