140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að hryggja hv. þingmann með því að ég átta mig ekki á þessari grein. Ég er ekki svo vel að mér í njósnastarfsemi og öðru slíku að ég geti sagt til um hvað þetta er. Þetta er eflaust eitthvert dulkóðunarkerfi og annað slíkt til að aðrir komist ekki í upplýsingarnar. En ég reikna með því að menn þurfi mjög mikinn tölvubúnað og mér sýnist þessi þingsályktunartillaga ganga út á það að sópa hingað inn erlendum starfsmönnum til að vinna þetta verk og matreiða Evrópusambandið ofan í Íslendinga þannig að þeim líki það vel. Ég átta mig ekki alveg á þessu en svo virðist vera að þetta allt komi ekki til tekna hjá íslenska ríkinu. Samningurinn gengur allur út á það að ekki séu borgaðir tollar, ekki virðisaukaskattur og ekki tekjuskattur og annað slíkt af þessari starfsemi og það er dálítið ankannalegt þegar búið er að gera alls konar verktaka eiginlega jafngilda starfsmönnum utanríkisþjónustunnar.