140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

skýrsla Barnaheilla um vannæringu barna í heiminum.

[12:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það var eitt sem gekk eins og rauður þráður í gegnum tal að minnsta kosti helmings þeirra sem töluðu í umræðunni áðan og það var mikilvægi þess að efla hag kvenna. Það er algjörlega hárrétt. Allar rannsóknir sem hafa verið gerðar, meðal annars þar sem við höfum komið að á ýmsum svæðum, sýna að heilsa og heill kvenna er nánast beintengt við viðleitnina um að draga úr vannæringu barna. Þess vegna gengur áherslan á stuðning við konur eins og rauður þráður í gegnum allt okkar þróunarstarf og áætlanir. Þetta hefur verið tekið út og lokið á það lofsorði og mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því að þarna erum við sennilega á réttri braut.

Ég tek líka undir með þeim sem tala um mikilvægi frjálsra félagasamtaka og það er eitthvað sem við, þ.e. framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið, þurfum að eiga umræðu um. Staðan er þannig í dag að við höfum ákveðið tímasetta áætlun um að auka við framlög til málaflokksins. Ég hef sagt það og drap á það í framsögu minni áðan að ég tel að mikilvægt sé að við hugum að því að með þeirri aukningu verði meira látið renna til frjálsra félagasamtaka. Ég hef sjálfur veitt slíkum samtökum forustu eins og einn annar hv. þingmaður, Ólöf Nordal, og við vitum hvað það er gríðarlega mikilvægt starf sem þar er af höndum innt og hvað verður mikið úr hverri krónu. Það er því mikilvægt að örva slík félagasamtök, þau hafa unnið þrekvirki.

Mig langar líka til að vekja eftirtekt hv. þingmanna á því að við eigum lítinn gimstein í þeirri stofnun sem heitir Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Hún vinnur gríðarlega gott verk. Verkefni hennar eru núorðið öll tekin út alþjóðlega og þau skila gríðarlega góðum árangri, við fáum mikið úr hverri krónu sem við leggjum þar til. Og af því að hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir nefndi að við ættum að reyna að hjálpa þjóðum til að vinna sig upp, langar mig að nefna það hér að í Úganda höfum við til dæmis gert það varðandi veiðar og vinnslu og þar hefur (Forseti hringir.) vannæring barna hríðfallið, barnadauði hríðfallið. Svona gæti ég talið (Forseti hringir.) nokkur verkefni til viðbótar þar sem þess sér virkilega stað að Íslendingar hafa komið við.