140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[16:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tvö mál sem eru í raun af sama meiði eða snúast um það sama, þ.e. að sameina stofnanir. Ég vil í upphafi, herra forseti, vitna að hluta til til ræðu sem flutt var hér fyrr um þessi mál af hv. þingmanni Ásmundi Einari Daðasyni þar sem hann velti því upp, úr því að verið væri að hringla í þessu, hvort ekki væri rétt að færa einhverjar af þessum stofnunum út á land, hann nefndi þar Vegagerðina sérstaklega. Ég held að það sé vel þess virði að halda því á lofti í þessari umræðu að sú leið verði skoðuð, ef þetta á að allt að ná fram að ganga og úr því að fara á að rugga bátum starfsmanna. Þess ber að geta að í þeim tilvikum sem verkefni og stofnanir hafa verið fluttar út á land hefur það gefist mjög vel og gengið vel og skipt miklu máli á þeim stöðum þar sem þær hafa verið settar niður.

Hér er lagt til að settar verði á fót tvær stofnanir, annars vegar Farsýslan, sem á að sjá um stjórnsýslu og eftirlit á sviði samgöngumála, og hins vegar Vegagerðin, sem á að hafa umsjón með framkvæmd og viðhaldi mannvirkja og þess háttar. Eflaust býr góður hugur að baki, en ég tek undir með þeim sem hér hafa talað um að forsendur séu heldur óljósar og vafamál að þær forsendur sem í það minnsta eru kynntar hér og miðað er við gangi og geti gengið eftir.

Í áliti minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar eru dregnar saman ákveðnar athugasemdir við málið allt og fjallað nokkuð um álit umsagnaraðila en þeir voru nokkrir sem skiluðu inn athugasemdum. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að fjalla aðeins um tvö álit, þ.e. álit Flugmálastjórnar og Siglingastofnunar.

Í bréfi Flugmálastjórnar, sem dagsett er 13. febrúar, er meðal annars vitnað til fyrri umsagna sem voru lagðar fram í mars 2011. Það vekur athygli að Flugmálastjórn telur ástæðu til að benda sérstaklega á að engir útreikningar hafi verið lagðir fram sem styðji þá fullyrðingu að fjárhagslegur ávinningur geti orðið af stofnun Farsýslunnar. Við hljótum að setja spurningarmerki við það ef rétt er að ekki hafi verið sýnt fram á slíkt með rökstuddum hætti. Það kemur líka fram hjá Flugmálastjórn að margt bendi til þess að kostnaður vegna stjórnsýslu eftirlits flugmála muni aukast. Þá veltir maður fyrir sér hver muni borga fyrir þann aukna kostnað. Er það ekki þannig að notendur eða viðskiptavinir þessarar stofnunar muni á endanum greiða kostnaðinn? Ef ekki liggur fyrir hversu mikill hann er, hversu mikill hann verður, held ég að málið þurfi frekari skoðunar við og frekari rökstuðnings.

Stofnunin bendir einnig á að ef fylgja á plani ráðuneytisins eftir og þetta eigi að koma til framkvæmda 1. júlí, sé tími til undirbúnings mjög lítill. Það er vitanlega heldur ekki gott að gera hluti sem þessa í einhvers konar spreng, ef má orða það þannig, menn þurfa að gefa sér góðan tíma til að vinna þetta á sem gleggstan og vandaðastan hátt.

Í athugasemdum Flugmálastjórnar frá því í mars 2011 sem ég nefndi áður, koma fram miklar áhyggjur af starfsemi flugsins. Sama má segja um álit það sem kemur frá Siglingastofnun. Þar eru, svo maður taki varlega til orða, miklar efasemdir uppi um að þetta sé farsælast til að tryggja sem besta starfsemi og aukið vægi þess sem snýr að verkefnum Siglingastofnunar og hafsins. Ég vil því taka undir þær hugmyndir sem komu hér fram áðan, meðal annars hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, um stofnun hafs og strandsvæða, eða hvað sem hún muni kallast, að það sem snerti hafið verði frekar sett í eina sterka og góða stofnun sem muni sinna því. Enda held ég að hagsmunir okkar á því sviði muni frekar aukast en hitt á næstu árum.

Mér er kunnugt um að í gangi sé vinna um heimskautasiglingar þar sem meðal annars er fjallað um þetta. Þar er lagt til að horft sé til þess að setja á fót sérstaka stofnun sem hafi með málefni hafsins að segja frá A til Ö, og í ljósi breytinga og mögulegra áhersluþátta varðandi norðurskautið og norðursvæðið og hafsvæðið allt sé mikilvægt að málið verði tekið til endurskoðunar, þ.e. það mál sem við fjöllum um hér, uppskiptingu þessara stofnana. Ég held að það sé í raun mjög skynsamlegt, eftir að hafa kynnt sér þær vangaveltur sem hér eru uppi, að setjast aftur yfir málið, því það kemur einnig fram í áliti Siglingastofnunar að hér sé ekki farið eftir þeim tillögum sem lagðar voru fram af nefndinni 2009 og þóttu hvað heppilegastar. Þar mælti nefndin einmitt með því sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson nefndi hér, að stofnun hafs og stranda yrði skoðuð sérstaklega. Undir það vil ég taka.

Hér erum við með vegamál, flugmál og siglingamál. Það má fullyrða að ýmislegt í þessum þáttum öllum sé líkt að einhverju leyti, en það er líka mjög margt ólíkt í eðli allra þessara þátta. Vegagerðin fer með umferðaröryggi að einhverju leyti og flugmálayfirvöld með flugöryggi og svo er það öryggi á sjónum. Það má velta því fyrir sér hvort það sé ekki hreinlega betra upp á framtíðina að vera með ákveðna sérfræðiþekkingu í hverri stofnun fyrir sig í stað þess að fara þá leið sem hér á að fara. Í það minnsta hef ég miklar efasemdir um hana.

Í nýlegu bréfi Siglingastofnunar, dagsettu 7. febrúar, er áréttað að mikilvægt sé að heildstæð kostnaðaráætlun og samrunaáætlun liggi fyrir vegna þessarar uppstokkunar sem hér er fjallað um. Ég á reyndar ekki sæti í umhverfis- og samgöngunefnd sem fjallar um þetta, en ég gat nú ekki séð slíka áætlun í þeim fylgigögnum sem ég gat nálgast. Ég held að það sé nauðsynlegt að slíkt liggi fyrir áður en lengra er gengið.

Virðulegi forseti. Í athugasemdum minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar er fjallað um þau álit sem ég nefndi hér og einnig eru forsendur sameininganna gagnrýndar, þ.e. lýst efasemdum um að helmingslækkun kostnaðar náist. Það virðist byggja á því að það vanti hreinlega rök sem skýri nákvæmlega hvernig eigi að ná þessum sparnaði. Er það vitanlega áhyggjuefni ef það er rétt.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi hvort ekki mætti nýta húsnæði úti á landi. Það snertir í raun það sama og ég nefndi áðan að úti á landi er víða hægt að sinna verkefnum á sviði þessara stofnana. En að sama skapi verður að sjálfsögðu að fara mjög varlega, því að á bak við þessi störf er fólk og ekki spurning að huga þarf að því öllu saman.

Herra forseti. Minni hlutinn endar álit sitt á því að leggja til að málinu verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar. Ég held að það sé í sjálfu sér vel athugandi að gera það, vegna þess að mér sýnist að málið þurfi frekari skoðunar við. Ég velti því upp hvort ekki sé rétt að endurtaka þá vinnu sem farið var í 2009 og skoða hvernig við viljum sjá þetta til framtíðar. Áherslan til dæmis á hafið og norðurskautið o.s.frv. hefur aukist mjög mikið frá 2009 og þar af leiðandi held ég að sé mjög skynsamlegt að skoða þetta sérstaklega.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni. Ég mælist eindregið til þess að málið verði skoðað betur. Það er margt sem hefur verið gagnrýnt í þessu og er gagnrýnivert. Það er vissulega svolítill tími liðinn frá því að byrjað var að skoða þetta og rétt, í ljósi þeirra hugmynda sem hér hafa komið fram og mögulega nýrra upplýsinga eða skýrslna sem verið er að vinna að, að málið verði skoðað á ný af framkvæmdarvaldinu.