140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

landsdómur.

[13:33]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Í gær var kveðinn upp dómur í landsdómi í ákærumálinu yfir Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Í kjölfar dómsins hefur verið vakin athygli á því að þegar við förum yfir þetta mál í heild sinni þurfum við að gera aðskilnað á milli tveggja hluta. Annars vegar er hin efnislega niðurstaða málsins sem að mínu mati felur það fyrst og fremst í sér að ákæruliðirnir allir voru tilefnislausir. Það er meginniðurstaða dómsins að hinn ákærði var sýknaður af öllum ákæruliðunum nema einum. Hins vegar er að það þurfi að ræða sérstaklega málsmeðferðina, meðferð ákæruvaldsins, réttarfarsreglurnar sem gilda um mál af þessum toga sem lúta að ábyrgð ráðherra.

Það sem gerðist í ákærumálinu gegn Geir H. Haarde voru að mínu áliti hlutir sem mega aldrei aftur endurtaka sig á Íslandi, nefnilega að ákæruvald sé í höndum stjórnmálamanna sem geta beitt matskenndum lagaákvæðum til að kalla fram sakamál á hendur öðrum stjórnmálamönnum, fyrrverandi leiðtogum. Þetta hefur orðið mörgum tilefni til að benda á þörfina fyrir endurskoðun laganna um landsdóm og ef ég hef tekið rétt eftir hefur einmitt forsætisráðherra tekið undir þau sjónarmið. Hún hefur reyndar áður lagt fram sérstök frumvörp um það efni.

Þess vegna ber ég það undir hæstv. forsætisráðherra hvort það sé ekki einmitt og kannski fyrst og fremst í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að það sem hér gerðist geti endurtekið sig í framtíðinni, að stjórnmálamenn taki sér það vald að beita matskenndum lagaákvæðum til að höfða sakamál, sem forsætisráðherra telur mikilvægt að lögin um ráðherraábyrgð (Forseti hringir.) og landsdóm verði tekin til endurskoðunar.