140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

fyrirætlaðar viðskiptaþvinganir ESB.

[13:59]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Þegar Íslendingar eiga í erfiðum deilum skiptir mestu fyrir þá að halda kúlinu. Í þessu tilviki sýnist mér sem hv. þingmaður blandi tvennu saman. Annars vegar er sú tillaga sem framkvæmdastjórnin hefur lagt fram þar sem leitað er eftir því að veittar verði heimildir til að fara í aðgerðir gegn þjóðum sem veiða úr stofnum sem ágreiningur er um. Sú tillaga sem framkvæmdastjórnin hefur lagt fram byggir á því eins og segir í tillögunni að farið sé að alþjóðlegum skuldbindingum. Alþjóðlegar skuldbindingar gætu verið þrennar, GATT-samningurinn, reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og síðan EES-samningurinn.

Það er alveg ljóst að framkvæmdastjórnin hefur lýst því yfir að tillaga hennar á að vera í samræmi við þetta. Vitleysisgangurinn sem ég svo nefndi, og er enn þeirrar skoðunar að sé, felst í breytingartillögu þingmanna sem koma úr makrílkjördæmum, sitja í sjávarútvegsnefndinni og óska eftir því að gengið verði miklu lengra. Þeir telja að tillaga framkvæmdastjórnarinnar sé bitlaus og að þess vegna þurfi miklu harðari vopn. Þess vegna hafa þeir lagt til að framkvæmdastjórnin fái meðal annars heimild til að banna löndun og innflutning á öllum fiskafla og sjávarfangi frá viðkomandi þjóðum.

Í þessu tilviki þegar ég sagði að menn þyrftu að halda kúlinu verða menn að muna að þessi tillaga sem hefur meiri hluta í sjávarútvegsnefndinni fer í tímans rás í samráð á millum þingsins, ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar. Ég verð að lýsa því yfir að ég tel að endanleg niðurstaða sem væntanlega er þá á miðju sumri eða í haust verði töluvert öðruvísi.