140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

heiðurslaun listamanna.

719. mál
[15:41]
Horfa

Huld Aðalbjarnardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til að byrja á að þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir framsögu um frumvarp þetta. Ég tel mjög jákvætt að lögfesta ákveðna umgjörð um veitingu listamannalauna almennt og tek undir að það er mikilvægt að hafa fjölbreytt menningarlíf og að listin skilar samfélaginu miklu.

Ég er samt svolítið hugsi í sambandi við hugmyndafræðina á bak við heiðurslaunin. Af forvitni langar mig að heyra viðhorfið til þess hverjum séu í raun ætluð þessi umræddu laun. Þau eru ætluð þeim sem skara fram úr í greininni og hafa unnið lengi að henni. Spurning sem ég velti fyrir mér er hvort umræddir listamenn hafi nú þegar fullar tekjur af list sinni. Ef þeir sem skara fram úr lifa ekki af list sinni, hverjir ná þá að hafa tekjur af henni? Hvernig stendur listin sem atvinnugrein? Gerir hugmyndafræðin að frumvarpinu að einhverju leyti lítið úr atvinnugrein listamanna? Væri nær í stað þessa að nota meira fjármagn og styrkja unga eða efnilega listamenn tímabundið og gefa þeim þannig tækifæri til að styrkja sig og auka möguleika sína til að afla sér tekna með list sinni og til lengri tíma?

Eins velti ég fyrir mér hvort þessi leið sé til þess fallin að auka veg listarinnar sem atvinnugreinar. Er það tilfellið að þeir listamenn sem skara fram úr nái ekki að framfleyta sér svo vel sé án listamannalauna, hvort sem það eru heiðurslaun eða önnur?

Þá velti ég líka fyrir mér hvernig staða nýliðunar sé í greininni. Hvernig er best að koma til móts við þessa ungu, efnilegu listamenn? Ég er að velta fyrir mér hvort fjármagninu sé best varið á þennan hátt.