140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

IPA-styrkir Evrópusambandsins.

[11:05]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það liggur auðvitað fyrir að við hv. þingmaður erum gjörsamlega ósammála um þessa IPA-styrki eins og margt annað sem varðar aðildarumsókn okkar að ESB. Við erum að tala um verulega fjármuni, 5 milljarða kr. styrki, sem eru óháðir því hvort við göngum inn eða ekki þannig að mér finnst það orðhengilsháttur að tala um aðlögunarstyrki í þessu efni.

Ráðherranefnd um Evrópumál fór yfir þessa styrki á sínum tíma, hverjir væru mögulegir, og skilgreindi hvaða styrkir það væru sem væri rétt að Ísland mundi þiggja í þessu efni. Ég held að í einu og öllu hafi verið farið eftir því. Ég vona að hv. þingmaður fari ekki að standa í vegi fyrir því að þessir 5 milljarðar skili sér í ýmis verkefni sem tengjast atvinnumálum.

Varðandi þá ósk hv. þingmanns að ég taki þátt í umræðunum um ESB í einhverri sérstakri umræðu sem hann boði til verð ég að segja að hv. þingmaður er alveg fullsæmdur af því að utanríkisráðherra sem fer með þetta mál (Forseti hringir.) taki umræðuna við hv. þingmann.