140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[19:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Við höfum að ég hygg tvívegis áður rætt hér frumvarp um breytingu á skattalögum og fleiri lögum með það að markmiði að tryggja skattleysi styrkja sem koma á grundvelli hinna svokölluðu IPA-samninga og eigum nokkuð eftir af þeirri umræðu eins og hv. þingmönnum er kunnugt um. Í þeirri umræðu hefur athyglin einkum beinst að hinum skattalega þætti málsins en auðvitað hefur þar blandast inn grundvallarumræða um IPA-styrkina og ESB-aðild.

Nú tökum við hins vegar fyrir þingsályktunartillögu sem fjallar um IPA-styrkina eða IPA-samninga, getum við kallað þá. Þingsályktunartillagan er grunnur þessa máls, hún er það þingmál sem snýst um grundvallaratriðin varðandi það hvort við eigum að taka við þessum styrkjum eða ekki og hvaða búning við eigum að hafa á þeim. Ég fagna því að fá tækifæri til að ræða þetta grundvallaratriði og þá ekki út frá einni afmarkaðri hlið sem lýtur fyrst og fremst, að mér liggur við að segja, tæknilegri útfærslu eins og skattalagafrumvarpið gerir. Nóg um það.

Til þess að takast á við þetta mál þurfum við að velta fyrir okkur ákveðnum grundvallaratriðum. Alþingi samþykkti sumarið 2009 að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það að sækja um aðild felur í meginatriðum í sér aðlögun að Evrópusambandinu. Það er viðurkennt, það er Evrópusambandið sem setur rammann og þau ríki sem sækja um aðild eru að sækja um aðild að fullmótuðu bandalagi eða ríkjasambandi. Þarna eru ekki tveir jafnsettir aðilar að semja á jafnréttisgrundvelli. Evrópusambandið er ekki að sækja um aðild að Íslandi heldur öfugt, Ísland er að sækja um aðild að Evrópusambandinu eins og það er. Það virðist vera eða sagt er að í boði séu fyrst og fremst tímabundnar undanþágur frá einhverjum tilteknum ákvæðum sem á eftir að koma í ljós hver eru.

IPA-styrkirnir eru samkvæmt kerfi Evrópusambandsins tengdir aðildarumsókn. IPA-styrkirnir eru ekki veittir hingað og þangað eftir hentugleikum, þeir tengjast aðildarumsókn og hafa ákveðinn tilgang í sambandi við aðildarferli. Það að sækja um IPA-styrki felur þess vegna í sér vilja og viðurkenningu á aðildarferlinu. Þess vegna, hæstv. forseti, er afskaplega einfalt fyrir okkur sem erum og höfum frá upphafi verið andvíg aðildarumsókninni og aðlögunarferlinu að leggjast gegn því að þessi samningur, rammasamningur um IPA-styrki, verði staðfestur — það er mjög auðvelt. Það er auðvelt út frá því grundvallaratriði að við viljum ekki vera í þessu aðildarferli og við viljum ekki að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Á sama hátt er málið líka tiltölulega auðvelt fyrir þá sem frá upphafi hafa viljað að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu og vilja að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Fyrir þá tengjast þessu máli engar sérstakar spurningar, pólitískar eða siðferðislegar. Þeir vilja Ísland inn í Evrópusambandið, vilja að við séum í aðildarferli og sjá þess vegna ekkert því til fyrirstöðu að við tökum við styrkjum sem tengjast því að við erum í aðildarferli. Það er tiltölulega einfalt mál fyrir þessa þingmenn.

Málið vandast hins vegar þegar um er að ræða þingmenn sem studdu aðildarumsókn, trúlega meiri hlutinn í einum þingflokki á þingi, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, og vildu sækja um aðild en vilja ekki gerast aðilar að Evrópusambandinu samkvæmt sinni yfirlýstu stefnu. Fyrir þann flokk hlýtur að vera afar flókið að standa að gerð samnings um IPA-styrki enda hefur saga þessa IPA-styrkjamáls verið töluverð vandræðasaga fyrir þingmenn og ráðherra Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eins og kunnugt er og þarf ekki að fara mörgum orðum um.

Við minnumst þess hvernig þetta mál breytti um takt hér á þinginu 2010/2011 þegar upphaflega var gert ráð fyrir að einstök ráðuneyti sæktu um styrki. Svo breyttist það og með sérstakri samþykkt í ríkisstjórn var ákveðið að stofnanir ættu að sækja um til ráðherranefndar um Evrópumál, það var eitthvað auðveldara fyrir einhverja hæstv. ráðherra úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem þurftu þá ekki að koma beint að málinu sjálfir heldur gátu látið afgreiða það fram hjá sér. Síðan þekkja menn þá umræðu sem hefur farið fram á vettvangi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á flokksráðsfundum og víðar um þessa styrki. Allt hefur þetta verið hið mesta vandræðamál.

Ég velti því fyrir mér — mér fannst ég ekki fá skýr svör um það frá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni áðan en virði það að hann hafi ekki svarað því skýrar — hvort ástæðan fyrir því hvernig þetta mál ber að á þingi eigi rætur sínar að rekja til þessa vandræðagangs innan ríkisstjórnarinnar og þá fyrst og fremst innan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Það er alveg ljóst að rammasamningur milli Íslands og Evrópusambandsins um IPA-styrkina var undirritaður um mitt síðasta sumar. Síðan heyrist ekkert af þessu máli opinberlega í langan tíma, mánuðum saman, og þingmálið sem við erum nú að ræða kemur ekki inn í þingið fyrr en eftir áramót þegar breytingar hafa orðið í ríkisstjórninni. Þá birtist þetta mál, er tekið til umræðu í lok janúar og er síðan í einhverjum vandræðagangi, leyfi ég mér segja, í hv. utanríkismálanefnd fram eftir vori. Það var tekið út á dögunum, 30. apríl, við þær aðstæður að eiginlega enginn, sennilega bara tveir af fastamönnum í utanríkismálanefnd skrifuðu undir nefndarálit þar að lútandi en tveir voru sóttir yfir í næstu nefnd til að það yrði aðeins fjölmennara á minnihlutaálitinu því að ekki náðist meirihlutaálit til að taka málið út.

Allt er þetta mjög sérkennilegt og hið mesta vandræðamál, eins og fram hefur komið. Málið allt ber það með sér að hafa hálfpartinn verið í felum, hálfpartinn talað um það í hálfum hljóðum vegna þess að annar flokkurinn sem á aðild að ríkisstjórninni hefur verið í óskaplegum vandræðum með það frá upphafi. Hvers vegna skyldu vandræðin vera? Jú, vandræðin eru vegna eðlis IPA-styrkjanna og vegna þess tvískinnungs sem er uppi af hálfu meiri hluta þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gagnvart aðildarumsóknarferlinu. Þorri þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs studdi tillögu um aðildarumsókn að bandalagi sem þeir kærðu sig ekkert um að ganga í og flokksmenn þeirra kæra sig ekki um að ganga í og kjósendur þeirra í síðustu kosningum kusu þá í trausti þess að þeir mundu ekki sækja um aðild heldur berjast gegn aðild. Þessi vandræðagangur skýrir hvernig málsmeðferðin hefur verið, hversu klaufalegt þetta hefur allt verið.

Þetta þingmál kemur inn í þingið tæpu hálfu ári eftir að samningurinn sem það snýst um er undirritaður og raunar líka eftir að byrjað er að útdeila peningum á fjárlögum á þeim grundvelli að þessir styrkir verði veittir. Við erum að fjalla um þessa samninga í þinginu fimm mánuðum eftir að samþykkt voru fjárlög þar sem gert er ráð fyrir ráðstöfun peninga sem ekki fást greiddir nema þetta þingmál verði samþykkt. Þetta ber það með sér að verið er að stilla málum upp með þeim hætti að þingmenn telji sig ekki eiga annarra kosta völ en að samþykkja þetta. Það er búið að lofa fjárveitingum á grundvelli þessara samninga, það er búið að skapa væntingar hjá fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum um að hægt verði að verja þessum peningum. Það er verið að stilla mönnum upp við vegg.

Auðvitað munum við þingmenn sem erum andvígir þessu máli ekki láta þetta á okkur fá. Við getum ekki tekið afstöðu á slíkum grundvelli. Við látum ekki stilla okkur upp við vegg og segja: Við verðum að samþykkja þetta af því að ágætisfólk hér og þar á landinu, hjá sveitarfélögum, stofnunum og fyrirtækjum, gerir sér væntingar um að fá einhverja styrki á þessum grundvelli. Við getum ekki tekið afstöðu á slíkum grundvelli, við getum ekki látið koma þannig fram við okkur, við þingmenn sem höfum efasemdir um þetta mál. Það er ótækt og endurspeglar hvað málsmeðferðin í þessu máli og þeim málum sem því tengjast hefur verið einkennileg og hversu óeðlilega er að þessu staðið.

Ég ætla, hæstv. forseti, að víkja örlítið að tilgangi og eðli IPA-styrkjanna. Í umræðunni má stundum skilja að hið góða alltumlykjandi Evrópusamband sé eingöngu að styðja jákvæð verkefni á Íslandi til að efla atvinnu, efla nýsköpun og þróun á Íslandi og það sé allt til komið af tómri góðvild. Auðvitað er það ekki svo. Auðvitað eru Evrópusambandsríkin ekki að fjármagna verkefni hér nema í einhverjum tilgangi. Það er ekkert að því, frá þeirra bæjardyrum séð er það ekkert óeðlilegt. Þeir segja sem svo: Umsóknarríki vilja verða aðilar að Evrópusambandinu — þeir reikna sem sagt með því að þeir sem sækja um aðild vilji verða aðilar. Ég hugsa að það sé algengast að þeir sem sækja um aðild vilji gerast aðilar. Þá segja þeir hjá Evrópusambandinu: Aðild krefst ákveðinnar aðlögunar, undirbúnings og uppbyggingar og við erum tilbúnir að láta peninga í aðlögun, uppbyggingu og þess háttar. Auðvitað er það þannig og auðvitað eru þessir styrkir hugsaðir þannig.

Menn á vettvangi Evrópusambandsins gera sér grein fyrir því að með því að veita styrki af þessu tagi eru þeir að tengja samfélagið í umsóknarlöndunum enn frekar við Evrópusambandið, væntanlega á jákvæðum nótum. Þeir sem hafa lifibrauð sitt af verkefnum sem tengjast Evrópusambandinu eru óhjákvæmilega jákvæðari í garð þess en ella. Ég vil ekki nota orðalag eins og glerperlur og eldvatn, eins og einhver gerði hér í umræðum, hæstv. forseti, en við skulum ekki vera neitt bláeyg eða barnaleg í þessu sambandi. Evrópusambandið er öðrum þræði að byggja upp jákvæða ímynd með þessum styrkveitingum í þeim löndum sem sækja um aðild, það er augljóst mál. Það er rétt að við höfum það í huga. Það veldur því að við sem erum andvíg Evrópusambandsaðild hljótum að taka þessu máli með miklum fyrirvara og standa gegn því á sama hátt og þeir sem í einlægni og með fullri vitund vilja stefna okkur inn í Evrópusambandið hljóta að styðja það. Þeir sem eru hins vegar á línunni eða á girðingunni og studdu aðildarumsókn í atkvæðagreiðslu í þinginu en segjast jafnframt ætla að berjast gegn aðildarsamningi hljóta að vera í skrýtinni stöðu, eins og hefur endurspeglast í allri meðferð þessa máls.

Aðeins nánar um þessa IPA-styrki má segja að sumir þeirra sem sótt hefur verið um fyrir Íslands hönd fara til verkefna sem okkur finnast frekar fjarlæg kjarna Evrópusamstarfsins. Látum það vera, það er kannski fyrir aðra að meta það en mig. En varðandi markmið þessara styrkja er ágætt að hafa í huga að það hefur m.a. verið skilgreint nýlega í ákveðnu blaði sem Evrópusambandssinnar gáfu út og dreifa á sveitabæi og kannski víðar. Þar er sagt í ritstjórnartexta um IPA-styrkina, með leyfi forseta:

„Tvö meginmarkmið hafa verið skilgreind varðandi þennan stuðning við Ísland“ — og vísað er síðan í Evrópuvef Háskóla Íslands. „Annars vegar er styrking íslenskrar stjórnsýslu svo að hún geti tekist á við þær breytingar sem innleiðing ESB-löggjafarinnar hefði í för með sér, ef Ísland gengi í ESB.“

Það er einhver aðlögunarblær á þessu. Ég veit ekki hvort hægt er að segja að þetta sé eitthvað annað en aðlögun, ég veit það ekki.

Svo segir:

„Hins vegar er undirbúningur vegna hugsanlegrar þátttöku í sjóðum og samstarfsáætlunum ESB sem Íslandi stæði til boða ef það gengi í sambandið.“

Svo er nánar skýrt, með leyfi forseta:

„Um þriðjungur af þessu fé er sérstaklega ætlaður til að kenna Íslendingum að nota byggða-, félagsmála- og dreifbýlissjóðina.“

Það á að kenna Íslendingum að nota byggða-, félagsmála- og dreifbýlissjóði Evrópusambandsins. Það er göfugt markmið að kenna mönnum að sækja um styrki.

Síðar í sömu grein í þessu ágæta blaði Evrópusinna, Sveitinni, er haft eftir Önnu Margréti Guðjónsdóttur, sem sögð er — og ég ætla ekki að efst um það — einn fremsti sérfræðingur Íslendinga um IPA-styrki. Hún segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Íslensk stjórnvöld ákváðu, í samráði við stækkunardeild ESB, að 30–50% af 28 milljónum evra ættu að fara í að læra að nota byggðasjóði Evrópusambandsins. Hugmyndin er að í sveitarfélögum um land allt æfi fólk sig í að búa til verkefni og umsóknir …“

Síðar segir sú ágæta kona:

„Við erum að fara í alvöruæfingu, prófa að búa til alls konar atvinnu- og mannauðsumsóknir sem eru unnar með öðrum hætti en við eigum að venjast á Íslandi.“

Svo segir síðar:

„IPA-styrkirnir eru mikilvægur liður í að kenna fólki að nýta sér hinu nýju tæki eða tól sem verða hluti af umhverfinu við ESB-aðild.“

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta segja ansi mikla sögu um það að Evrópusambandið er að nota þessa styrki og þá um leið eru kannski stuðningsmenn Evrópusambandsins hér á landi að nota þessa styrki til þess að laga ekki bara stofnanir og fyrirtæki að Evrópusambandinu heldur kenna fólki líka að nota styrkjakerfið og mér leyfist að segja að láta fólk ánetjast þessu kerfi Evrópusambandsins. Mér finnst það augljóst. Ég verð að segja að mér finnst það ógeðfellt. Mér finnst óeðlilegt að íslensk stjórnvöld sæki um þessa styrki. Ég á ekki í vandræðum með þá afstöðu í ljósi þess að ég taldi aldrei að við ættum að sækja um og tel að við eigum ekki að ganga í Evrópusambandið.

Ég endurtek það sem ég sagði að ég skil ákafa Evrópusambandssinna í því að styðja þetta mál. Fyrir þeim hlýtur að vera hið besta mál að taka við svona styrkjum, ná í einhvern aukapening í sambandi við Evrópusambandsumsóknina. Fyrir aðra er heldur ógeðfelldur blær á þessu öllu og ekki síst, hæstv. forseti, er skrýtin staða þeirra þingmanna sem í öðru orðinu segjast ætla að berjast gegn aðild að Evrópusambandinu en styrkja þessa ánetjun að Evrópusambandinu í hinu.