140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[19:52]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að minna á þetta rit sem hann vísaði til. Ég var með það í huga í ræðu áðan en mundi ekki heitið á því. Slíkir textar eiga auðvitað að vera skyldulesning fyrir þingmenn vegna þess að þeir afhjúpa hið rétta eðli aðildarviðræðna og aðlögunarferlis í þessu sambandi eins og við erum í.

Það hefur reyndar verið alveg óhemjumikil feimni og hræðsla hjá stjórnvöldum og meiri hlutanum á þingi að gangast við því að umsóknarferlið fæli í sér aðlögun og hefði þann tilgang að laga okkur að Evrópusambandinu. Það hefur líka verið ákveðin blekking fólgin í því að reyna að stilla málum upp þannig að Ísland og Evrópusambandið séu með einhverjum hætti jafnsettir aðilar sem setjast við samningaborð og ákveða hvernig Evrópusambandið eigi að vera eftir að Ísland gengur inn. Það er auðvitað ekki svo. Ísland er að ganga í Evrópusambandið eins og það er og verður auðvitað að aðlaga sig því eins og raunar ýmsir talsmenn Evrópusambandsins sjálfs hafa bent á þegar um er spurt. Það að sækja um aðild að Evrópusambandinu felur í sér að menn gangast undir regluverk Evrópusambandsins en ekki þannig að Ísland geti samið á jafnréttisgrundvelli um það hvert það regluverk eigi að vera. Það er auðvitað ekki svo.

Þriðja atriðið sem menn hafa verið alveg óskaplega feimnir við að nefna er að þessar styrkveitingar eru óhjákvæmilega tengdar við Evrópusambandsumsóknina og hafa auðvitað, eins og hv. þingmaður vísaði hér til, þann tilgang að efla aðlögun (Forseti hringir.) að sambandinu.