140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[20:32]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Fróðlegast við þessa ræðu hv. þingmanns var kannski það að hann fór fram og aftur í því ferli sem við höfum staðið í núna í 18 ár og reyndar fleiri. Annars vegar talaði hann um IPA-styrkina, sem eru sumsé þeir styrkir sem veittir eru umsóknarríkjum, og hins vegar talaði hann um hvernig ástandið gæti verið eftir að við hefðum framið þann hryllilega glæp gagnvart gengnum kynslóðum og komandi að ganga í Evrópusambandið. Hann talaði líka um kröfur sem gerðar væru til okkar vegna þess að við erum EES-þjóð. Hann nefndi Ríkisútvarpið í því dæmi og hlýtur að vita að þær Evrópukröfur sem koma að okkur í ríkisútvarpsmálum eru vegna þess að við erum EES-þjóð, ég vænti þess að þingmaðurinn geri sér grein fyrir því.

Er ekki misskilningur okkar sá, forseti, og bið ég þingmanninn að svara því, að við skulum hafa gengið í efnahagssvæði Evrópu? Ættum við ekki að ganga úr efnahagssvæði Evrópu? Þá þyrftum við ekki að taka við neinum svona skipunum og gætum lifað hér frjáls og glöð til eilífðarnóns uppi á hinu góða, bláa landi án tengsla við aðrar þjóðir að mestu og þyrftum ekki að vera hrædd við neina styrki, hvorki þá styrki sem okkur bjóðast núna í gegnum IPA-kerfið né alla þá hræðilegu peninga sem við höfum þegið og ég rakti áðan í andsvari, 157 millj. evra, þar af 70 millj. evra í hreina gjöf, sem væntanlega flokkast undir perlur og eldvatn. Væri ekki betra fyrst okkur urðu á þessi mistök á sínum tíma, þar á meðal hálfum Framsóknarflokknum, að ganga úr efnahagssvæði Evrópu um leið og við hættum þessum viðræðum við bandalagið mikla?