140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[20:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt ef það sem var eftirtektarverðast eða forvitnilegast í ræðu minni var að ég skyldi fara fram og aftur í þeim gögnum sem ég vitnaði í. Ég hefði haldið að um væri að kenna smáskipulagsleysi hjá þeim er talaði frekar en að það væri eitthvað forvitnilegt.

Mig langar hins vegar að segja við spurningu hv. þingmanns, hvort við eigum að slíta samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, að ég tel að við eigum ekki að gera það. Ég held að við eigum jafnvel að beita okkur fyrir því að sá samningur verði styrktur frekar en að við göngum í Evrópusambandið.

Frú forseti. Eins og hv. þingmaður veit getum við, með því að skipuleggja okkur betur og setja meiri fjármuni í að fylgjast með þeim Evrópugerðum sem koma frá Evrópusambandinu, verið betur undirbúin og reynt jafnvel að hafa áhrif fyrr á stigum á hvernig þær líta út. Auk þess megum við ekki gleyma því heldur að við höfum ákveðnar heimildir til að spyrna við fótum þegar eitthvað kemur sem okkur líkar sérstaklega illa við.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að EES-samningurinn gerir ákveðnar kröfur á hendur okkur út af t.d. Ríkisútvarpinu, lagaumgjörð og öðru slíku. Það er þá kannski algjör heppni eða óheppni, ég veit ekki hvort á að segja, að akkúrat sú athugasemd sem kemur fram í 9. lið, ef ég man rétt, í stækkunarskýrslunni síðustu, að þarna þurfi Íslendingar aldeilis að herða sig og minnka hlut Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, skuli koma inn í þetta ágæta frumvarp. Það kann að vera hægt að finna því stað í kröfum í samningum um Evrópska efnahagssvæðið og þeirri EES-gerð sem við höfum tekið upp, ég geri ráð fyrir að hægt sé að finna því stað þar, og það kann vel að vera að við þurfum að uppfylla þetta út af því. Ég ætla ekkert að segja að hægt sé að segja nei við því en mér fannst athyglisvert að þetta skyldi hittast svona á.

Hinu mun ég svara á eftir, um styrkina.