140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[20:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ég get notað orðið siðlaust en mér finnst í það minnsta ekki heiðarlegt af Íslendingum eða þeim sem standa mjög fast að þessu ferli öllu saman að reyna að telja þeim sem við erum að semja við trú um að þetta sé einfalt mál á Íslandi eða að baki ferlinu sé tryggur meiri hluti þegar ljóst er að í það minnsta þrír af fjórum stærstu stjórnmálaflokkunum eru á móti og ætla að berjast gegn aðild þegar að því kemur. Ég hlýt að spyrja hvort það sé eitthvert siðferði í því að halda slíkri ferð áfram.

Þá komum við að sjálfsögðu inn á svar við spurningu hv. þingmanns um hvort það sé rétt og siðlegt að þiggja þessa fjármuni vitandi það að stór hluti þjóðarinnar og líklega meiri hluti þingsins muni á endanum greiða atkvæði gegn aðild. Það finnst mér ekki siðlegt. Ég held að við eigum ekki að standa þannig að málum að vera í einhvers konar sýndarferli, þiggja fjármuni sem eflaust gætu nýst einhverjum öðrum miklu betur en okkur og láta líta svo út að full alvara sé að baki ferlinu.

Ég hygg að þegar á hólminn er komið, þegar nær dregur því að greidd verði atkvæði um hvort þessu verði lokið eða því haldið áfram með samning, muni verða settar spurningar við siðferði Íslendinga sem þáðu fjármuni en börðust svo hart gegn aðild.