140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[22:00]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að þessir þróunarstyrkir, það fé sem hér er til boða af hálfu Evrópusambandsins, eru til þess ætlaðir að búa landið undir að uppfylla þau skilyrði og þær kröfur sem Evrópusambandið gerir og eru tvímælalaust aðlögunarstyrkir. Ýmsir hafa neitað því að svo sé, sérstaklega þingmenn og ráðherrar sem ættu að vita betur, en það fer ekkert á milli mála í skýrslu Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra, um utanríkis- og alþjóðamál, sem vafalaust hefur verið unnin af mörgum af hans ágætu embættismönnum. Þar stendur að IPA-styrkirnir séu meðal annars veittir á grundvelli landsáætlana fyrir Ísland og þær landsáætlanir lúti að undirbúningi fyrir þátttöku í stoðkerfissjóðum Evrópusambandsins svo sem á sviði atvinnuuppbyggingar og byggðamála þannig að íslenskir aðilar séu frá fyrsta degi reiðubúnir að nýta sér kosti aðildar. Til að svo sé þarf að vera búið að byggja upp þær stofnanir sem þarf.

Í skýrslu utanríkisráðherra segir svo að ekki verður um villst að um aðlögunarstyrki er að ræða enda pólitískt ætlaðir til þess. Þar segir, með leyfi forseta:

„Landsáætlanir fyrir árin 2012 og 2013 eru í undirbúningi. Á árinu 2012 verður áhersla lögð á undirbúning fyrir þátttöku í stoðkerfissjóðum og á árinu 2013 á uppbyggingu stofnana.“

Hvað er það annað en bein aðlögun? (Forseti hringir.) Það ætti feimnislaust að ræða (Forseti hringir.) þetta mál á þeim grunni sem það er sett fram eins og gert er í skýrslu utanríkisráðherra.