140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[22:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Danskur stjórnmálamaður lagði einhvern tíma til að varnarmálastefna Danmerkur ætti að felast í því að vera með sjálfvirkan símsvara á rússnesku, held ég að það hafi verið, sem segði: Við gefumst upp — (Gripið fram í.) það þyrfti ekki að vera neitt annað. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort sama stefnan sé gagnvart alþjóðlegu yfirvaldi um allt, þ.e. stjórnarflokkar leggja bara niður skottið.

Ekkert ríkjasamband eða ríki á í deilum við Íslendinga í dag sem ég man eftir nema Evrópusambandið út af makríl, það blandar sér í Icesave-deiluna o.s.frv. Hvort sem menn kalla þetta stríð eða ekki þá er sá sem við eigum helst í deilum við Evrópusambandið.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann út í það sem mér heyrðist hann segja, að Evrópusambandið minnti meira og meira á ríki. Ég minntist á það í ræðu minni að Evrópusambandið hefði komið með þá hugmynd að setja fánann sinn á íþróttabúninga hjá íþróttamönnum en því var hafnað. Evrópusambandið á sinn eigin þjóðhátíðardag og meira að segja þjóðsöng þannig að það er ýmislegt sem minnir á ríki. Ég velti því fyrir mér hvort það sé sú þróun sem Íslendingar ætli að vera þátttakendur í, að búa til eitt stórt Evrópuríki þar sem hugsanlega verða einhver fylki og Ísland verður kannski fylki í því ríki en ráðstafanir fjármuna, ákvarðanir um orkunýtingu, náttúruauðlindir og annað verði teknar allt annars staðar en á Íslandi. Þróunin virðist í það minnsta vera í þá átt að Evrópusambandið sé hægt og bítandi að breytast í ríki, ekki síst þegar farið er að sækjast í það að stjórna fjárlögum einstakra þjóðríkja meðan þau eru enn til.