140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[23:21]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór vel yfir það í ræðu minni að þetta væri aðlögun og ekkert annað og tek undir með hv. þingmanni, það kemur alveg skýrt fram í 3. gr. en ég notaði ræðutíma minn aðallega til að fjalla um almennar reglur um fjárhagslega aðstoð.

Varðandi sýnileikann líka er farið fram á það að hér sé allt opið og gegnsætt og það kemur fram í samningnum að það eigi að vera mjög upplýst í hvað peningarnir fara. Þegar Evrópusambandið hefur aðlagast öðrum ríkjum og ríki verið í umsóknarferli hefur sérstök stofnun alltaf verið sett á fót í viðkomandi ríki til að hafa umsýslu með þeim fjármunum svo þeir fari á rétta staði, inn í réttar stofnanir til að styrkja út af Evrópusambandsumsókninni. Á þetta allt saman að gerast frá Brussel í okkar tilfelli? Það er mjög einkennilegt. Það er eins og ríkisstjórninni sé ekki treyst fyrir því að setja á fót stofnun til að deila út þessum peningum. Það er eitt, en svo er þessi sýnileiki líka hér að landsmenn séu upplýstir um hvernig allt gengur, hvernig viðræðuferlið er og hverjir fá peninga og annað. Því miður er ríkisstjórnin að bregðast Evrópusambandinu að þessu leyti vegna þess að hingað til hefur allt verið lokað ofan í skúffu. Allar þær upplýsingar sem við þingmenn höfum reynt að kreista út úr hæstv. utanríkisráðherra höfum við þurft að sækja með töngum og oft og tíðum eru svörin svo ófullbúin að þau eru ekki boðleg fyrir þjóðþing. Það er bara þannig, frú forseti, svo ég tali hreint út. Oftar en ekki virðist hæstv. utanríkisráðherra skrifa þessi svör sjálfur, jafnvel á nóttunni því að þau hafa verið svo fáránleg. Það er allt í takt í þessu máli, upplýsingar læstar ofan í skúffu, ekki sagt satt og rétt frá, og öllu því sem kemur frá Evrópusambandinu haldið leyndu, líklega í þeirri von að fleiri greiði þessu atkvæði (Forseti hringir.) fyrir rest.