140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[23:30]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. ESB-málið í þinginu hefur frá upphafi byggst upp á svikum, prettum og kúgunum. Það að hinn raunverulegi meiri hluti utanríkismálanefndar sé 1. minni hluti í svo mikilvægu máli sýnir alveg svart á hvítu hvað um er að vera. Tækifærið var notað þegar einn hv. þingmaður í hinum svokallaða meiri hluta mætti ekki á fund. Hvernig var þetta í atkvæðagreiðslunni sumarið 2009 þegar lagt var til að við sæktum um aðild að Evrópusambandinu? Það hefur komið fram í máli fyrrum þingmanna Vinstri grænna að þeir voru teknir út undir vegg og þeim hótað af hæstv. forsætisráðherra að ef þeir mundu ekki styðja þessa aðildarumsókn mundi fyrsta tæra vinstri stjórnin springa. Svona voru vinnubrögðin og svona eru vinnubrögðin enn. Þetta er keyrt áfram á hnefa hæstv. forsætisráðherra og frekju, leyfi ég mér að segja, og engu öðru. Þetta hefur síðar komið í ljós en ég hef stundum sagt að það hefði verið best fyrir þjóðina og okkur öll og atvinnulífið að hin svokallaða hreina tæra vinstri stjórn hefði sprungið í tætlur strax sumarið 2009.

Þingmaðurinn fór yfir fjárhagsaðstoð við umsóknarríki sem hann las upp og auðvitað eru þessar pólitísku hreinsanir ekkert annað. Ég spyr: Af hverju þurfa ríki að taka á móti fleiri milljörðum við það eitt að vera umsóknarríki? Hvaða frekja er þetta hjá alþjóðlegu valdi að skipta sér svo freklega af innanríkismálum ríkis? Ég minni á að þingmenn Evrópusambandsins hafa líka sagt opinbera að við Íslendingar höfum ekkert að gera við þessa þróunaraðstoð. Það er litið á þessa styrki sem þróunaraðstoð (Forseti hringir.) fyrir fátæk umsóknarríki sem eru í aðlögunarferli að Evrópusambandinu. Ég held að þeir ættu að líta í átt til Tyrklands. Tyrkland er búið að liggja inni (Forseti hringir.) með umsókn að ESB í 15 ár. Ég held að það ætti frekar að fara að semja við þá.