140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[23:56]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg klárt að við sóttum um, að við erum umsóknarland og sækjum um aðild að Evrópusambandinu á forsendum þess. Það er alveg ljóst enda hefur Evrópusambandið gert það fullkomlega skýrt.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni eru hins vegar dregnir fram þeir meginhagsmunir sem við megum ekki semja frá okkur. Það eru í raun þau skilyrði sem ríkisstjórninni og samninganefndinni eru sett, að ekki megi víkja frá þeim meginhagsmunum sem þar eru. Þess vegna stendur líka í greinargerð með þingsályktunartillögunni að komi sú staða upp að samningum eða aðildarferlinu verði ekki haldið áfram nema víkja þurfi frá þeim meginskilyrðum sem þar eru tilgreind þá nái samningsumboð ríkisstjórnar og samninganefndar ekki lengra og málið eigi að fara aftur til þingsins. Skýrt er kveðið á um þetta.

Þegar ágreiningur varð í ríkisstjórn um ákveðnar aðgerðir mínar, meðal annars það að ég vildi ekki þiggja IPA-styrki til fyrrgreindra verkefna, ég sagði að til þess væri hvorki lagaleg heimild til þess né félli það að greinargerðinni sem fylgdi þingsályktunartillögunni um umsóknina. Reyndar er komið á daginn að sérstök lagaleg heimild er til umræðu hér í þinginu. Ég taldi líka að ef ágreiningur væri um það ætti hann að vera þingsins og það væri þá þingið sem ætti að kveða á um það, ef það væri vafa undirorpið, hvort heimilt væri að halda þessu áfram.

Þetta er því þannig séð skilyrt en umsóknin er algjörlega á forsendum (Forseti hringir.) Evrópusambandsins, það er alveg klárt.