140. löggjafarþing — 106. fundur,  25. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[00:40]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég treysti mér í sjálfu sér ekki til að vera með neinar vangaveltur um hvort það hefði haft áhrif. Ég gæti ímyndað mér að það gæti svo sem haft áhrif í báðar áttir. Einhver sagðist hafa séð í þessu tækifæri fyrir uppbyggingu á einhverjum sviðum og fundist kannski Evrópusambandið verða eitthvað álitlegra. Ég gæti hins vegar vel ímyndað mér að mjög margir hefðu brugðist við með alveg gagnstæðum hætti og sagt sem svo að það væri ólíðandi fyrir okkur sem sjálfstæða þjóð að vera einhvers konar þiggjandi að fjárhagslegum styrkjum frá Evrópusambandinu og fyrir vikið hefði viðkomandi þess vegna snúist mjög hart gegn hugmyndinni um aðild að Evrópusambandinu.

Í þessu sambandi væri fróðlegt að vita kostnaðinn við þennan gagnagrunn sem hv. þingmaður hefur upplýst að verið sé að undirbúa á vettvangi Hagstofunnar. Ég hafði til dæmis ekki gert mér grein fyrir því að þessir styrkir sem eru tíundaðir væru sérstaklega eyrnamerktir þessu tiltekna verkefni. Í skýrslu utanríkisráðherra eru til að mynda nefnd ýmis verkefni en auðvitað væri mjög fróðlegt (Forseti hringir.) að vita, og nokkuð sem við þurfum þá væntanlega að kalla eftir upplýsingum um, kostnaðinn við að búa til þennan mikla gagnagrunn (Forseti hringir.) og greiðslustofufyrirkomulag sem hv. þingmaður var að upplýsa okkur um (Forseti hringir.) að væri verið að undirbúa núna hjá Hagstofunni.