140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:25]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að henni fannst þetta mál lykta af vondri pólitík. Ég tek undir þau orð hv. þingmanns. Ég hef verið mjög ósáttur við það alla tíð og svo sem ekki getað leynt gremju minni gagnvart því að þegar málið var komið úr þessari þinglegu meðferð eins og ég leyfi mér að nota orðið, þ.e. þegar þær forsendur sem lagt var af stað með af hálfu þingsins eftir nefndarálit hv. samgöngunefndar, eftir að sá farvegur var ekki lengur fyrir hendi og hv. umhverfis- og samgöngunefnd óskaði eftir því að það yrði gerð óháð úttekt á málinu, kom þáverandi hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon og tilkynnti að nú mundi hæstv. fjármálaráðherra láta gera þessa úttekt.

Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hún geti tekið undir það með mér að þessi vinnubrögð séu vond pólitík. Hv. þingmaður vitnaði líka töluvert í skýrslu IFS Greiningar og í ljós kom að þegar IFS Greining kynnti niðurstöður skýrslu sinnar fyrir hv. fjárlaganefnd vissi IFS Greining ekki fyrr en daginn eftir að hún skilaði skýrslunni til fjármálaráðuneytisins að 400 millj. kr. hlutafé væri útlagður kostnaður en ekki reiðufé sem félagið ætti. Það undirstrikaði auðvitað mikilvægi þess að það færi fram alvöruvinna í þessu.

Því spyr ég hv. þingmann hvort hún geti tekið undir það sjónarmið mitt að akkúrat þetta eru þau vinnubrögð sem þurfi að afleggja á þinginu, þ.e. að framkvæmdarvaldið taki málið úr farvegi sem það á að vera í.