140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:31]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er bara hjartanlega sammála efnisátektum þessa máls varðandi það hvar eigi að raða svona opinberri framkvæmd. Mér finnst þetta eiga erindi inn í umhverfis- og samgöngunefnd og ég styð það að hún fái að fara til umhverfis- og samgöngunefndar. Það hefur áhrif, það er orðið ljóst að þetta er opinber framkvæmd og hún á að lúta sömu stefnumótun og aðrar opinberar framkvæmdir í samgöngumálum.

Hvort þingsköp leyfa að mál sé tekið til átekta í tveimur nefndum er annað mál. Annars vegar erum við með fjármálahlið þessa máls, sem er eðlilegt að fjárlaganefnd taki til umfjöllunar, en þá verður að minnsta kosti að koma umsögn frá umhverfis- og samgöngunefnd þannig að hún eigi aðkomu að því að fjalla um málið út frá þeim forsendum, sem eru orðnar alveg deginum ljósari, að þetta er opinber framkvæmd og hefur áhrif á aðrar opinberar framkvæmdir. Ég leggst ekki gegn því, að sjálfsögðu ekki.