140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:41]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég deili ekki við hv. þm. Róbert Marshall um það að þessi framkvæmd sé bæði þjóðhagslega þörf og bæti atvinnuástand. Um það er ekki verið að deila, ekki eins og ég skil hv. þingmenn sem fjallað hafa um þetta mál. Það eru hins vegar aðrar framkvæmdir sem falla betur að röksemdum hv. þingmanns um umferðaröryggi og styttingu en þessi framkvæmd. Þá nefni ég það sem ég þekki best til í Suðurkjördæmi og nefni þar í fyrsta lagi Hornafjarðarfljót sem er mjög brýn framkvæmd vegna þess að brúin er að fara. Það er veruleg stytting á þjóðvegi 1 og mjög umtalsverð og góð tenging. Ég nefni þar einar 20–30 einbreiðar brýr, sem hv. þm. þekkir, á leiðinni frá Kirkjubæjarklaustri og alla leið austur á Höfn. Hvaða skoðun hefur þingmaðurinn á því? Gæti hann hugsað sér að bjóða þær framkvæmdir og aðrar út með sömu forsendum og þessa í einkaframkvæmd. Einhvern tímann var talað um að Sjóvá-Almennar mundu leggja Hellisheiðaveg. Ef maður setti þetta í sama samhengi mundi það ekki verða mun brýnni framkvæmd?

Svo er algjörlega ljóst í mínum huga að sú framkvæmd sem hér er rætt um mun hafa ruðningsáhrif á aðrar framkvæmdir. Það hefur verið rökstutt mjög ítarlega og það mun hafa áhrif á aðrar framkvæmdir sem eru brýnni og hefur verið ítarlega rökstutt.

Ég vil biðja hv. þingmann að fara aðeins nánar í þessi sjónarmið og eins hvort hann geti sett samasemmerki milli Vaðlaheiðarganga og Hvalfjarðarganga, vegna þess að styttingin að því er varðar Hvalfjarðargöngin er mun meiri, þrefalt meiri ef ég man rétt.