140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:45]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Það er algjörlega kýrskýrt að fjallvegir sem Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng leysa af hólmi hafa miklu mun meira að segja hvað umferðaröryggi varðar, sem við erum að raða fremst, en göngin um Vaðlaheiði. Ég get líka nefnt, úr okkar kjördæmi hv. þm. Róberts Marshall, Kambana sem eru mikil slysagildra.

Ég vildi spyrja hv. þingmann hvað hann segir um það að málsmeðferð við þetta mál sé í anda hugsunar sem gagnrýnd er verulega í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis; sniðganga, sveigja lög, búa til umhverfi þannig að þessi áhættusækni sé möguleg. Þá á ég sérstaklega við það að taka öryggisventilinn úr lögum um ríkisábyrgðir úr umferð eins og gert er í frumvarpinu, sem mér finnst algjörlega ófært.