140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:59]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi þá aðferð að grafa skurð og moka ofan í hann aftur. Ég minni bara á margar aðrar framkvæmdir sem kalla mikið frekar á vinnuafl og skynsamlegra væri að fara í út frá hagfræðilegu sjónarmiði.

Ég hef mestar áhyggjur af því að það verði vaxtastigið sem muni sliga okkur í þessari framkvæmd. Ég hef verulegar áhyggjur af því. Ég hvet hv. þingmann, ef honum hefur ekki gefist tími til eða hefur ekki farið nægilega vel yfir, að kanna ábendingar frá Ríkisábyrgðasjóði. Þar eru sérfræðingarnir í þessum málum. Þeir segja það sem ég segi í nefndaráliti mínu og hv. þm. Illuga Gunnarssonar að lykilatriði sé að tryggja fjármögnunina út tímann í staðinn fyrir að taka gríðarlega áhættu með vexti miðað við vaxtakjör í dag.

Síðan vil ég segja við hv. þingmann í mestu vinsemd: Ég gef ekki mikið fyrir það, hvorki hjá hv. þingmanni né öðrum hv. þingmönnum, þar með talið þeim sem hér stendur, þegar menn segja: Ég mun taka pólitískum afleiðingum (Forseti hringir.) þessa verks þegar þar að kemur — þ.e. eftir sex ár. Það er ekki raunhæft að segja þetta, hvort heldur sem það er hv. þingmaður eða sá er hér stendur.