140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[16:39]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Herra forseti. Við ræðum hér hvort ríkið eigi að ganga inn í og veita ríkisábyrgð til gerðar Vaðlaheiðarganga.

Ég vil byrja á því að segja að ég hef fylgst með þessari umræðu frá því að hún hófst í dag. Hér hafa tekist á ólík sjónarmið og sýnist sitt hverjum um þetta mál en mér finnst umræðan búin að vera málefnaleg og menn fjalla hér um aðalatriði málsins. Þegar við förum yfir málið held ég að við verðum aðeins að rifja upp sögu þess og aðdraganda. Sagan er reyndar rakin í nefndarálitum með frumvarpinu en ætlunin var að setja af stað nokkur verkefni með fjármögnun frá lífeyrissjóðunum til að örva hér atvinnulíf og koma því af stað. Voru þar nefnd ýmis samgönguverkefni, bygging opinberra fasteigna o.fl. Vaðlaheiðargöng voru hluti af þessum pakka og líka tvöföldun Vesturlandsvegar og Suðurlandsvegar og svo Reykjanesbrautin.

Síðan slitnaði upp úr viðræðum við lífeyrissjóðina haustið 2010 en vinnu við Vaðlaheiðargöngin var haldið áfram þrátt fyrir að Vaðlaheiðargöngin hefðu verið sú samgönguframkvæmd af þeim sem ég nefndi hér áðan sem minnstar líkur voru á að settar yrðu í einkaframkvæmd.

Þau göng sem rætt er um í dag eru Vaðlaheiðargöng, Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng. Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng eru allir sammála um að séu gríðarlega mikilvægar framkvæmdir og eigi að vera framarlega í forgangsröðuninni en ástæða þess að Vaðlaheiðargöng eru á dagskrá og til umræðu er sú að menn segja að þau eigi algjörlega að standa undir sér fjárhagslega og að ríkissjóður muni ekki með nokkrum hætti þurfa að koma inn í þá framkvæmd. Það var ástæðan fyrir því að lífeyrissjóðirnir ætluðu að koma að þessu á sínum tíma. Það er líka röksemdin sem notuð er fyrir þessu máli í dag.

Ef við skoðum aðeins samgönguáætlun sem nú er í vinnslu í umhverfis- og samgöngunefnd og bíður þess að koma til 2. umr. sjáum við að það eru tvenn göng á dagskrá. Samgönguáætlun er sem sagt plagg þar sem við forgangsröðum verkefnum, þingið forgangsraðar samgönguframkvæmdum út frá félagslegum þáttum, byggðaþáttum, umferðaröryggissjónarmiðum og fleiri þáttum. Þar eru þessi tvenn göng, eins og ég sagði áðan, Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng. Áætlað er að vinna við Norðfjarðargöng hefjist á undan og Dýrafjarðargöng síðar, á öðru og þriðja tímabili.

Vaðlaheiðargöng eru hins vegar tekin fram fyrir vegna þess að sagt er að hún sé framkvæmd sem standa eigi undir sér í einu og öllu. Við getum síðan gagnrýnt það í þessari umræðu hversu litlir fjármunir renna almennt til samgöngumála. Ef við skoðum það til dæmis í hlutfalli við tekjur af eldsneyti og af ökutækjum er áætlað núna á árinu að tekjur af ökutækjum og eldsneyti verði 54 milljarðar en einungis er varið 15,7 milljörðum til vegagerðar. Það er gagnrýnisvert út af fyrir sig en það er grunnurinn að samgönguáætlun og forgangsröðun verkefna þar.

Þegar það kom á daginn að lífeyrissjóðirnir tækju ekki frekari þátt í þessu verkefni var ákveðið að halda samt áfram með Vaðlaheiðargöng af því að menn töldu að það stæði undir sér. Margir hafa efasemdir um að svo sé, meðal annars sá sem hér stendur, ég vildi skoða þetta mál betur. Eins og ég sagði á ég sæti í umhverfis- og samgöngunefnd fyrir hönd Framsóknarflokksins. Umhverfis- og samgöngunefnd tók málið upp að eigin frumkvæði síðasta haust og ákvað að kanna undir forustu formanns nefndarinnar hvort þessi samgönguframkvæmd stæði undir sér eins og einkaframkvæmd á að gera. Var það skilningur meiri hluta nefndarmanna að ef svo væri og nefndin teldi það væri ekkert athugavert við að slík framkvæmd færi í einkaframkvæmd, ekki út frá gerð samgönguáætlunar eða út frá samgöngunefnd, það gætu hins vegar verið einhverjar pólitískar áherslur sem mæltu gegn slíku.

Nefndin kannaði málið og óskaði meðal annars eftir því að gerð yrði sjálfstæð úttekt og óháð úttekt á þessu. Það var reyndar ekki orðið við því. Fjármálaráðuneytið lét hins vegar vinna skýrslu sem fylgir með frumvarpinu sem IFS Greining vann. Umhverfis- og samgöngunefnd fór yfir þá skýrslu og fleiri skýrslur og úttektir sem unnar voru og kafaði mjög djúpt ofan í málið. Það er skemmst frá því að segja að meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar, og meðal annars sá sem hér stendur, tók þátt í því 1. febrúar 2012 að rita það álit sem meiri hluti nefndarinnar gaf frá sér varðandi Vaðlaheiðargöng eftir þessa vinnu og sendi bæði fjárlaganefnd og fjármálaráðherra.

Mig langar, með leyfi herra forseta, að stikla aðeins á þeim niðurstöðum sem þar eru í áliti umhverfis- og samgöngunefndar þar sem sagði meðal annars, með leyfi herra forseta:

„Ekki hefur enn fundist einkaaðili sem er reiðubúinn að taka verkefnið að sér og líkur á að ríkissjóður muni í reynd sitja uppi með alla áhættuna. Vandséð er að Ríkisábyrgðasjóður geti tekið ábyrgð á lánveitingunni miðað við þau lög sem um sjóðinn gilda nema eigið fé Vaðlaheiðarganga hf. verði aukið verulega en í því félagi á ríkissjóður ríflega helming hlutafjár.“

Svo kemur hér síðar:

„Að öllu framansögðu telur meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar rétt að nú raðist Vaðlaheiðargöng inn í samgönguáætlun á jafnræðisgrundvelli við önnur samgöngumannvirki landsmanna.“

Þarna voru raktar mjög vel allar þær forsendur sem liggja til grundvallar verkinu með tilliti til umferðarþunga, kostnaðar, vaxtakjara, endurfjármögnunar og fleiri þátta. Niðurstaða meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar á þessum tíma var sú að málið ætti að fara aftur til umhverfis- og samgöngunefndar þar sem það ætti heima.

Það sem ég sagði áðan varðandi Ríkisábyrgðasjóð var síðan staðfest í umsögn um málið, þ.e. áhyggjur nefndarmanna á sínum tíma af því að ríkið þyrfti að taka á sig þessar skuldbindingar og í raun áhyggjur manna af þessu máli. Umsögn Ríkisábyrgðasjóðs, sem barst okkur 20. mars 2012, staðfestir í rauninni allar þær áhyggjur og allt það sem meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar sagði um málið þegar nefndin sendi frá sér bréf til hæstv. fjármálaráðherra og til hv. fjárlaganefndar 1. febrúar 2012. Mig langar að stikla á stóru í umsögn þeirra því að hún er mjög athyglisverð.

Það kemur meðal annars fram eftirfarandi, með leyfi herra forseta:

„Gert er ráð fyrir að ríkissjóður fái lán sitt endurgreitt árið 2018. Geta lántaka til þess að endurgreiða byggist á því að fjárfestar muni árið 2018, þegar göngin eru komin í notkun, veita VHG lán án ríkisábyrgðar. Ef slíkt lán fengist yrðu vextir sem þá byðust og önnur lánskjör einn afgerandi þátta. Vaxtakjör lánsins réðust af því hvernig fjárfestar litu á tekjumöguleika lántaka, getu hans til þess að standa undir greiðslu vaxta og afborgana sem og aðra þætti sem mundu draga úr áhættu lánveitanda svo sem eigið fé. Þess vegna verður ekki undan því vikist að skoða einnig þær forsendur.“

Þetta er eitt af því sem umhverfis- og samgöngunefnd skoðaði á sínum tíma. Þeir fara meðal annars yfir skýrslu IFS Greiningar og fara yfir allt sem liggur til grundvallar.

Hér segir aftur, með leyfi forseta:

„Ef miðað er við að allar forsendur Vaðlaheiðarganga standist nema að vextir á langtímaláninu verði 7% munu göngin ekki standa undir sér“ — sem er ekkert ólíklegt að verði miðað við hvernig vaxtakjör eru í landinu í dag og hvernig trúlegt er að þau muni þróast — „og eigið fé félagsins verður orðið neikvætt um rúmlega 5 milljarða árið 2045.“

Þarna erum við í rauninni að tala um 5 milljarða sem þá væru með ríkisábyrgð.

Síðan varðandi umferðarspá segir hér, með leyfi herra forseta:

„Í skýrslu Pálma Kristinssonar verkfræðings áætlar hann að um 80% af umferðinni fari í gegnum göngin en afgangurinn um Víkurskarð. Ef sú áætlun gengur eftir mun það lækka árlegar rekstrartekjur félagsins um 11%.“ Það munar um minna í þessu.

Hér segir aftur, með leyfi herra forseta:

„Ríkisábyrgðasjóður telur sig ekki hafa nægilegar forsendur til að leggja sjálfstætt mat á skiptingu umferðar á milli Víkurskarðs og Vaðlaheiðarganga eða greiðsluvilja vegfarenda. Þar sem tekjuforsendur ganganna byggja að miklu leyti á þessu mati er í ljósi mikillar óvissu eðlilegt að varfærni sé gætt í matinu“ — sem skortir töluvert á í skýrslu IFS Greiningar.

Í niðurstöðum Ríkisábyrgðasjóðs kemur fram, eins og hjá skýrsluhöfundum IFS Greiningar, að rökstyðja megi betur kostnaðinn við innheimtu þar sem sá kostnaður sé allverulega mikið hærri í Hvalfjarðargöngum til að mynda en gert er ráð fyrir.

Hér segir um Hvalfjarðargöng, með leyfi herra forseta:

„Síðustu tvö árin er þessi kostnaður [þ.e. stjórnunarkostnaður Hvalfjarðarganga] 120 millj. kr. á ári. Ríkisábyrgðasjóður telur að skýra þurfi betur þennan mun.“

Stjórnunarkostnaður Vaðlaheiðarganga er áætlaður 15 millj. kr. á ári en kostnaður Hvalfjarðarganga er 120 millj. kr. Sá munur er ekki nægilega vel skýrður.

Hér komum við að þeim þætti sem ég fjallaði aðeins um áðan, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi um Vaðlaheiðargöng er gert ráð fyrir því að veitt verði undanþága frá ákvæði laga um ríkisábyrgðir sem kveður á um að lántaki, í þessu tilfelli Vaðlaheiðargöng, skuli leggja fram að minnsta kosti 25% af heildarfjárþörf verkefnisins.“

Þarna er sem sagt verið að aftengja það að Vaðlaheiðargöng þurfi að leggja fram að minnsta kosti 25% af heildarfjárþörf verkefnisins.

Svo segir síðar, í þarnæstu setningu:

„Óhjákvæmilega mun lágt eiginfjárhlutfall félagsins hafa áhrif á möguleika þess til endurfjármögnunar árið 2018.“

En það er á engan hátt gert ráð fyrir því að það muni hafa einhver neikvæð áhrif hvað það snertir. Svo því sé haldið til haga er þetta rakið í einu nefndaráliti hjá fjárlaganefnd þar sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson er 1. framsögumaður.

Þar segir að vegna þess að þessi regla sé tekin úr sambandi þurfi ábyrgðarþegi, þ.e. Vaðlaheiðargöng, ekki að leggja fram 25% af heildarfjárhæð verkefnisins, eins og sagði áðan, eða að leggja fram viðeigandi tryggingar að mati Ríkisábyrgðasjóðs og ekki að gæta þess að ábyrgðir ríkissjóðs nemi ekki hærra hlutfalli en 75% af lánsfjárþörf verkefnisins sem veitt er ríkisábyrgð.

Það má því segja að út frá þessu sé í rauninni verið að veita þarna óútfylltan tékka.

Ríkisábyrgðasjóður hefur engra pólitískra hagsmuna að gæta í þessu máli, bara svo því sé haldið til haga. Hann er hvorki úr Norðausturkjördæmi né Reykjavíkurkjördæmum, hann er bara ríkisábyrgðasjóður sem gætir hagsmuna ríkissjóðs sem honum ber að gera vegna þess að málið er sett fram eins og einkaframkvæmd, ekki eins og opinber framkvæmd, ekki eins og Dýrafjarðargöng, ekki eins og Norðfjarðargöng eða nein önnur samgöngumannvirki sem ríkissjóður fjármagnar og á að öllu leyti.

Þá segir hérna, með leyfi herra forseta:

„Samkvæmt framansögðu getur framkvæmd Vaðlaheiðarganga ekki flokkast undir einkaframkvæmd enda er gert ráð fyrir því að ríkissjóður taki á sig alla áhættu varðandi fjármögnun verkefnisins ásamt því að þurfa að treysta því að fjárfestar endurfjármagni án ríkisábyrgðar verkefnið að framkvæmdum loknum árið 2018. Áhætta ríkisins er því slík að eðlilegt er að horfa til þess hvort ekki sé hagkvæmara að ríkissjóður fjármagni verkefnið að fullu með sama hætti og aðrar opinberar framkvæmdir.“

Svo segir í niðurstöðukaflanum:

„Afar ólíklegt er að unnt verði að endurfjármagna framkvæmdalán vegna Vaðlaheiðarganga án ríkisábyrgðar með þeim lánskjörum að verkefnið standi undir sér og ríkissjóður fái lán sitt þannig endurgreitt. Ríkið yrði því bundið með það fjármagn sem nú er ráðgert að veita til framkvæmdanna.“

Herra forseti. Þarna segir alveg skýrt að þetta verkefni eins og það er sett upp getur ekki flokkast sem eðlileg einkaframkvæmd og þess vegna er eðlilegt að það flokkist sem opinber framkvæmd. Það er algjörlega samhljóða því bréfi sem ég fjallaði um áðan sem meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar að meðtöldum þeim sem hér stendur sendi fjármálaráðherra og fjárlaganefnd á sínum tíma við vinnslu málsins.

Ef verkefni eru opinber framkvæmd fara þau í vinnslu í samgönguáætlun eins og meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar lagði til. Í samgönguáætlun fer fram forgangsröðun á verkefnum. Þar eru öll jarðgöng rædd, hvort sem það eru Norðfjarðargöng, Dýrafjarðargöng eða Vaðlaheiðargöng. Þeim er forgangsraðað og tekið er tillit til félagslegra þátta, þ.e. byggðaráhrifa, umferðaröryggis og fleiri þátta. Það liggur alveg ljóst fyrir að ekki er hægt að færa rök fyrir því að Vaðlaheiðargöng geti staðið undir sér fjárhagslega. Það hafa þeir viðurkennt sem tekið hafa þátt í umræðunum í dag og stutt þessa framkvæmd. Þeir hafa sagt að það sé ekkert óeðlilegt að ríkið greiði þann mismun sem þarna er, en það kemur þá niður á öðrum samgöngumannvirkjum. Ekki var lagt var upp með það varðandi þetta verkefni en okkur ber skylda til þegar við metum þessa framkvæmd að taka út fyrir sviga þessa samfélagslegu þætti og horfa eingöngu í fjárhagslega þætti því að þannig er verkefnið er uppsett.

Ef dæmið væri ekki sett upp með þeim hætti og horfa mætti til hinna samfélagslegu þátta mætti líka velta því fyrir sér hvort nokkuð væri því til fyrirstöðu að setja þá Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng í forgang. Það má vel velta því fyrir sér og svo er bara lengt í láninu eftir 2018 og ríkissjóður tekur kostnaðinn sífellt meira á sig.

Herra forseti. Það bréf sem umhverfis- og samgöngunefnd sendi á sínum tíma vegna þessa máls til fjármálaráðherra og fjárlaganefndar, hefur fyllilega staðist alla skoðun við frekari úrvinnslu málsins og mér sýnist Ríkisábyrgðasjóður taka undir það, en það segir ekkert til um hvort menn eru fylgjandi þessari framkvæmd eða ekki, með eða á móti landsbyggðinni. Ég held að sá sem hér stendur verði seint sakaður um að vera á móti landsbyggðinni eða uppbyggingu þar.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal kom inn á það áðan að þetta væri einhvers konar grísk fjármögnun, það sem Grikkir væru ásakaðir fyrir að gera. Ég verð að segja það, herra forseti, að mér þykir hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og formaður Vinstri grænna, sem lagt hefur mikla áherslu á þetta mál, vera kominn fulllangt til Grikklands, en eins og kunnugt er var honum boðið starf þar á dögunum. Mér þykir hann vera kominn fulllangt (Forseti hringir.) í grísku bókhaldi miðað við að hafa ekki þegið starfið í Grikklandi. (MÁ: Hann er að æfa sig.) (Forseti hringir.) Ég sé núna hvers vegna honum var boðið þetta starf í Grikklandi.