140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:12]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að það sé hárrétt hjá hv. þingmanni að það væri hvorki gott pólitískt fyrir þann sem hér stendur né hv. þingmann ef það spyrðist út að við værum sammála í samgöngumálum í of miklum mæli.

Varðandi þetta mál þá gera þau rök sem liggja fyrir það að verkum að þetta getur ekki flokkast sem neitt annað en opinber framkvæmd. Þá er eðlilegast að þessi framkvæmd verði með í vinnslu samgönguáætlunar sem fer fram í umhverfis- og samgöngunefnd, eins og ég hef margoft sagt, og þar takist á ólík sjónarmið. Það lýsir ekki andstöðu við þetta verkefni, það lýsir ekki andstöðu við samgönguframkvæmdir á landsbyggðinni, heldur lýsir það því að framkvæmdir eiga að fara í samgönguáætlun sem vill svo til að er í vinnslu núna í þinginu. Það er ekkert því til fyrirstöðu að þessu verði vísað til nefndarinnar og hún taki málið upp líkt og meiri hluti hennar komst að og sendi frá sér bréf þess efnis 1. febrúar 2012 (Forseti hringir.) til fjármálaráðherra og fjárlaganefndar.