140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:47]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sú lausn sem ég tel að sé í það minnsta þess virði að ræða, fara yfir og kanna hvort hægt sé að ná sátt í þinginu um, er að ákveðið hlutafé af hálfu ríkisins verði sett í þetta félag þannig að áhætta ríkisins sé afmörkuð og afgirt. Því félagi verði síðan falið að leita til lánveitenda um að lána fyrir því sem upp á vantar þannig að t.d. reglur Ríkisábyrgðasjóðs um eiginfjárhlutföll til verkefna verði virtar. Það fari líka fram mat þeirra aðila sem veita lán til slíkra framkvæmda á því hvort hér sé um að ræða framkvæmd sem stenst þær kröfur sem til slíkrar leiðar eru gerðar. Það sem að mínu mati er ekki hægt að segja er að við ætlum að lána 8,7 milljarða til verkefnis vegna þess að við höfum ekki efni á því að leggja til 1,5 eða 2 milljarða sem hlutafé. Augljóslega getum við ekki farið þá leið.