140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[21:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla heldur engum það að annarleg sjónarmið búi að baki eða eitthvað slíkt. Hins vegar óttast ég það, og ætla bara að vera hreinskilinn með það, að hér sé verið að búa til fordæmi sem kann að opna á alls konar hugmyndir í framtíðinni eða verði til þess að einhverjir aðrir misvitrir stjórnmálamenn bendi á fordæmið og segi: Sjáiði, við höfum gert þetta áður, við skulum gera þetta aftur, við skulum bara fara í framkvæmdir — af því að við höfum slakað svona á klónni. Þetta kann líka að skapa það fordæmi að breyta reglum, varúðarreglum sem við höfum sett varðandi ríkissjóð, og einhverjum öðrum reglum þegar fordæmið er komið.

Ég held að íhuga ætti vandlega að gera bara þær kröfur sem eru gerðar í þessum reglum sem á að taka úr sambandi, eins og kannski hv. þingmaður gaf í skyn að þetta væru ekki það miklar kröfur og ef að baki þessu stæðu alvöruaðilar ættu þeir að geta lagt þetta fram, 20% af heildarfjármögnun verkefnisins, viðeigandi tryggingar að mati Ríkisábyrgðasjóðs o.s.frv.

Mér finnst að minnsta kosti mjög mikilvægt, herra forseti, að við gerum okkur grein fyrir að það getur verið að hér sé verið að opna á fordæmi sem kunni að geta reynst varasamt í framtíðinni, svo ég segi það bara. Við eigum eftir að fara í miklar framkvæmdir á næstu árum, Íslendingar, í mörgu og þetta ákvæði er ekki bundið við jarðgöng eða samgönguframkvæmdir.