140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[22:21]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör við þeim spurningum sem ég beindi til hans. En hæstv. ráðherra sagði í lok máls síns, ef ég hef heyrt rétt þegar hann vitnaði til Gilsfjarðar, að lífríkið hefði drepist innst í firðinum. Ég veit ekki hvort mér hefur misheyrst og veit þá ekki hvort rétt sé með farið ef ég hef heyrt rétt því að sú framkvæmd gekk afskaplega vel. Það var búið að spá henni miklum hrakföllum eða menn höfðu miklar efasemdir um hvaða áhrif þær framkvæmdir hefðu á ákveðna þætti lífríkisins og þær gengu sem betur fer ekki eftir.

Við erum að fara í svokallaða fjárfestingaráætlun og við erum að spýta fé inn í vegagerð sem hefur verið í sögulegu lágmarki. Það fer ekkert á milli mála. Það þekkja það allir og einungis um 5,5 milljarðar hafa farið í vegagerð, upphæðin hefur verið 6 og 7 milljarðar síðustu tvö ár á undan. Þá er mjög mikilvægt að við séum meðvituð um það að þegar búið er að finna þessa lausn á sunnanverðum Vestfjörðum, hver sem hún verður nákvæmlega, með láglendisleið, verði ekki nein töf og bið á því að farið verði í það verkefni. Það er það svæði sem hrópar á mann. Ég hef ekki enn heyrt einn einasta hv. þingmann eða hæstv. ráðherra halda því fram að það sé ekki forgangsverkefni. En við megum heldur ekki vera með einhver klækjabrögð eða væntingar eins og í þessu máli sem gæti hugsanlega haft þau áhrif að þegar kæmi að þessum verkefnum kæmu hugsanlegar afleiðingar af því verkefni sem við ræðum hér og nú í hausinn á okkur sem yrði þá til þess að menn gætu ekki farið í þær brýnu framkvæmdir. Það er gríðarlega mikilvægt að menn séu meðvitaðir um það. Þetta er brýnasta vegaframkvæmdin á öllu landinu, að fara í að (Forseti hringir.) tengja saman sunnanverða Vestfirði.