140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[23:42]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu tek ég undir og er samþykk þeim tillögum sem Ríkisábyrgðasjóður leggur til í áliti sínu. Þó það nú væri, það er hlutverk Ríkisábyrgðasjóðs að meta hvort verkefni standast lög um ríkisábyrgð. Ríkisábyrgðasjóður er því akkúrat rétti aðilinn til að leggja mat á það og koma þá með leiðbeinandi ráð sem hann hefur og gert sem ég fagna mjög, og mér finnst að skoða eigi það betur vegna þess að það virðist ekki hafa verið tekið tillit til þess í frumvarpinu.

Ég ætla líka að minnast á það aftur þessu til rökstuðnings að fram kemur í áliti 1. minni hluta sem hv. þingmaður og fyrirspyrjandi, Ásbjörn Óttarsson, er flutningsmaður að, að við þurfum að taka þetta alvarlega vegna þess að við gerð lokafjárlaga 2010 þurfti að gjaldfæra ríkisábyrgð upp á 28 milljarða. (Forseti hringir.) Við ætluðum að hætta slíkum vinnubrögðum og vera ekki alltaf með óútfyllta tékka inn í framtíðina. Þessa þróun verður að stöðva.