140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

barnalög.

290. mál
[15:24]
Horfa

Frsm. velfn. (Guðmundur Steingrímsson) (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir mikilvægi þessa. Það er óréttlátt að hafa það sem einhvers konar meginreglu við skiptingu kostnaðar við umgengni að kostnaðurinn skuli lenda á herðum umgengnisforeldris. Umgengni er í þágu barnsins og á ábyrgð beggja foreldra að haga málum svo að umgengni sé rík. Þessi almennu sjónarmið held ég að liggi því til grundvallar að í frumvarpinu er einmitt lagt til að meginreglan um að kostnaðurinn lendi alfarið á herðum umgengnisforeldris verði aflögð og að fyrirkomulagið verði þannig að foreldrar semji um þetta.

Þó að enn sé sú viðmiðunarregla hjá sýslumönnum að umgengnisforeldri beri kostnað við umgengni, ef til ágreinings kemur, vil ég leggja ríka áherslu á að það eru líka ákvæði í lögunum sem veita sýslumanni heimild til að hverfa frá þeirri viðmiðunarreglu. Þá mun hann væntanlega horfa til þess hvort um sé að ræða dýr ferðalög eða eitthvað slíkt eða fylgd í flugi fyrir barnið, sem skapar kostnað. Það eru ríkar heimildir fyrir sýslumenn til að hverfa frá þessari viðmiðunarreglu ef til ágreinings kemur.

Lykilatriðið er að það er verið að lögfesta þá meginreglu að foreldrar skuli semja um þennan kostnað og endurskoða alla þessa umgjörð.