140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

barnalög.

290. mál
[16:04]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um breytingu á barnalögum. Aðrir hv. þingmenn sem sitja með mér í velferðarnefnd hafa farið hér í löngu máli yfir frumvarpið og nefndarálit nefndarinnar sem ég er á með fyrirvara, en ég ætla í örstuttu máli að tæpa á nokkrum atriðum.

Í fyrsta lagi langar mig að vekja athygli á 5. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um inntak sameiginlegrar forsjár. Þar er lagt til eins og fram hefur komið, að lögfest verði sérstakt ákvæði um inntak sameiginlegrar forsjár. Mörgum sem lesa ákvæðið yfir þykir að það takmarki mjög hvaða réttindi felast í því að vera með sameiginlega forsjá þar sem lögheimilisforeldrið sé í rauninni í þeirri afdrifaríku og valdamiklu stöðu að geta tekið ákvarðanir. Hér er engu að síður leitast við að lögfesta hvað þetta fyrirkomulag felur í sér. Þetta er einfaldlega sú niðurstaða sem ráðuneytið komst að og nefndin tekur undir að þetta sé sú leið sem er fær, síðan verður einfaldlega að reyna á það hvernig þetta mun gefast.

Þessi málaflokkur, barnalögin, varða mikilvæg mál og mikilvæg réttindi. Í allri umfjöllun um þau og í þeirri tilraun til þess að laga lagaumhverfi hefur verið lögð mikil áhersla á að horfa á hlutina út frá réttindum barnsins. Það er leiðarljósið í allri þessari vinnu.

Ég er á þeirri skoðun að þetta mál hefði betur átt heima í allsherjarnefnd líkt og háttað hefur verið hingað til við setningu barnalaga og breytingar á þeim. Ég hef ákveðnar áhyggjur af því að brugðið sé út af því verklagi. Reyndar hef ég ekkert út á vinnubrögðin sem ástunduð voru í nefndinni að setja, en ég vakti athygli á því í nefndinni að þetta væri mitt sjónarmið og vil ítreka það hér. Hefði þetta mál farið til umsagnar í allsherjarnefnd líkt og ég óskaði eftir, en þeirri beiðni minni var hafnað, tel ég að við hefðum getað fengið ítarlegri og dýpri umfjöllun um þau réttarfarslegu atriði sem varða þetta mál. Ég tel rétt að það komi fram hér.

Vegna þess að hér er lögð afar mikil áhersla á hagsmuni barnsins og að horft sé á þessi mál öll út frá því höfum við í nefndinni sett inn í nefndarálit leiðsögn til framtíðar um það hvort rétt sé að skoða að skipa börnum talsmann þegar forsjármál er orðið staðreynd. Þetta kemur til vegna umsagnar Dómarafélagsins, hún á reyndar ekki nákvæmlega við það frumvarp sem rætt er nú á þessu þingi, heldur frumvarp til breytinga á barnalögum frá fyrra þingi þar sem þessi hugmynd var sett fram. Ég tel að það hefði verið rétt skref að setja inn ákvæði um slíkt að þessu sinni, en það náðist ekki. Ég vonast til að það verði skoðað betur í framhaldinu. Það væri hugsað þannig að ekki væri skylt að skipa talsmann heldur væri sýslumanni heimilt að gera það þegar forsjármál væri til meðferðar hjá embætti og jafnframt væri dómara heimilt að skipa barni slíkan talsmann. Það væri alveg ljóst að sjálfstæður aðili væri á þeim fundum og við þá ákvarðanatöku sem varðaði barnið og hefði það sérstaka hlutverk að gæta hagsmuna barnsins sem talsmaður þess.

Ég er á þessu máli með fyrirvara vegna þeirrar heimildar sem hér er verið að veita dómurum til þess að dæma sameiginlega forsjá. Ástæðan fyrir því er sú að ég hef ekki trú á því að rétt sé að veita dómara þessa heimild. Ég tel að inntakið í því sem heitir sameiginleg forsjá sé, bæði samkvæmt orðanna hljóðan og samkvæmt reynslu, að fólk sem deili forsjá sé sammála um það fyrirkomulag. Það er grunnurinn að því að slíkt fyrirkomulag geti gengið upp. Ég hef unnið í þessu kerfi. Ég hef starfað sem fulltrúi sýslumanns og verið með mál sem þessi til meðferðar í þeim störfum mínum. Ég byggi álit mitt einfaldlega á þeirri reynslu minni og tel að slík heimild þurfi ekki að vera til staðar í lögunum. Ég hef hins vegar fulla trú á þeirri sáttaleið sem hér er lögð til grundvallar sem meginregla.

Í löggjöf okkar hefur áður verið reynt að byggja upp sáttameðferð en því hefur hins vegar ekki fylgt neitt fjármagn og ekki jafnskýrar lagareglur og hér koma fram. Ef uppfyllt verða þau fyrirheit ríkisstjórnarinnar um að fjármagn muni fylgja þessari hugmynd um að stórefla sáttameðferðina, hef ég fulla trú á því að það sé leiðin sem við eigum að byggja á og við munum byggja á. En nú þegar væntanlega verður lögfest heimild til að dómari geti dæmt sameiginlega forsjá tel ég að það geti haft þær afleiðingar að freistandi verði við niðurskurð að láta hnífinn skera niður í þessum málum, sáttameðferðin verði ekki jafnknýjandi og nauðsynleg ef þessi heimild verður til staðar og jafnframt muni fleiri aðilar láta málið fara fyrir dóm frekar en að leysa það sín á milli í sáttameðferð.

Þetta eru þær áhyggjur sem ég hef af þessari heimild. Ég tel því að hún ætti ekki að koma inn í lögin að svo stöddu og tek undir þau sjónarmið sem birtast í greinargerð með frumvarpinu frá ráðuneytinu.

Hv. þingmenn hér á undan mér hafa rætt það að við í nefndinni leggjum til að ákvæði um aðför verði áfram í löggjöfinni. Ég tek undir það. Við settum jafnframt inn í nefndarálitið tillögu um að láta gera verklagsreglur um það með hvaða hætti þessar gerðir fara fram. Þetta eru auðvitað afskaplega viðkvæm mál. Þegar kemur að því að framfylgja þarf ákvörðun með aðför er ansi langt komið og ansi margt búið að ganga á. Það reynir því á þetta í fáum tilvikum. Þess vegna er ekki daglegt brauð hjá þeim sem annast slíkar aðfarargerðir að framkvæma þær. Þess vegna höfum við upplifað dæmi um það og séð að framkvæmdin er ekki nægilega skýr og menn kannski ekki nægilega undirbúnir þegar farið er af stað. Þess vegna töldum við rétt að leggja það til í nefndaráliti okkar að gerðar verði verklagsreglur þannig að við gætum bæði nýtt þá reynslu sem fyrir hendi er og reynt að hafa einhvers konar leiðsögn tilbúna þegar slík mál rata inn á borð hjá þeim sem þurfa að framkvæma aðförina. Ég fagna því að þetta náðist inn í nefndarálitið og vonast til að slíkar verklagsreglur líti dagsins ljós hið fyrsta eftir samþykkt þessa frumvarps.

Þannig er mál með vexti að nefndinni hefur borist erindi eftir að þetta nefndarálit var lagt fram frá Gísla Kr. Björnssyni héraðsdómslögmanni þar sem vakin er athygli á sjónarmiðum varðandi 46. gr. a. Ég tel því rétt að nefndin taki málið inn til sín að nýju á milli 2. og 3. umr. og ræði þetta erindi og fái gesti til nefndarinnar til þess að fara betur yfir þetta ákvæði. Ég óska hér með eftir því að það verði gert. Á slíkum fundi væri hægt að varpa betra ljósi á þær spurningar sem settar eru fram í þessu erindi og ég tel eðlilegt að hagsmunahópar fái að koma og tjá sig fyrir nefndinni og koma athugasemdum á framfæri beint og milliliðalaust við nefndina.

Frú forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fara dýpra í þetta mál. Ég hef gert grein fyrir þeim athugasemdum og áhyggjum sem ég hef af ýmsum ákvæðum sem stendur til að innleiða hér og af því verklagi sem viðhaft var við vinnslu þessa máls. Ég tel mikilvægt að jafnframt komi fram að nefndin vann þetta eins vel og hægt var, en ég tel engu að síður nauðsynlegt að við fundum að nýju á milli 2. og 3. umr.