140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

barnalög.

290. mál
[12:13]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er um að ræða mikið umbótamál og nokkur tímamót. Árið 2006 þegar þingið gerði sameiginlega forsjá að meginreglu varð töluverð umræða um það hvort bæti ætti inn ákvæði um dómaraheimld til að úrskurða sameiginlega forsjá. Þá fluttum við hér nokkrir þingmenn breytingartillögu þess efnis sem náði ekki fram og ástæðan fyrir því var að einhverju leyti sú að umræðan var ekki nógu langt gengin og þroskuð.

Nú hefur málið verið unnið mjög vel í þingnefnd og niðurstaðan er mjög ánægjuleg. Hér eru gerðar þrjár stórar breytingartillögur eins og hv. framsögumaður gerði grein fyrir áðan og við ræddum í gær og lýsi ég mikilli ánægju með þær. Þetta er mikið umbótamál og horfir mjög til framfara fyrir hagsmuni barna og auðvitað foreldranna líka.

Ég vakti athygli í umræðunni í gær á einu ákvæði sem Félag um foreldrajafnrétti beindi til þingsins að skoða, sem er um að foreldrar skuli skipta með sér kostnaði vegna umgengni nema annað sé ákveðið með samningi. Beini ég því til nefndarinnar að skoða ákvæðið sérstaklega á milli 2. og 3. umr., fyrst málið fer þangað inn. Þetta er mikilsvert atriði og í sjálfu sér eðlileg viðbót við þær breytingar sem hér eru lagðar til.