140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

barnalög.

290. mál
[12:22]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Það er mér mjög mikið fagnaðarefni að sjá að þingheimur hefur samþykkt að innleiða í lög heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá. Þrjár íslenskar nefndir sem fjallað hafa um þessi mál á undanförnum árum hafa komist að þeirri niðurstöðu að taka ætti upp þessa heimild. Öll Norðurlöndin hafa gert það og sum fyrir löngu síðan. Reynslan er almennt mjög góð.

Hér er heimildin tekin upp með ýmsum skilyrðum. Í greinum frumvarpsins eru ákvæði sem segja til um hvernig heimildinni skuli beitt. Það er alltaf sáttameðferð á undan og svo snýst þetta náttúrlega í grundvallaratriðum um að þegar dómari verður að skera úr um erfið ágreiningsmál foreldra verður hann að geta dæmt það sem er barni fyrir bestu. Ef dómara býðst ekki þessi heimild geta í mjög mörgum málum hugsanlega (Forseti hringir.) komið upp þær kringumstæður að hann getur ekki dæmt þannig að það sé barninu fyrir bestu. Með því að innleiða þessa heimild (Forseti hringir.) er dómara það alltaf kleift.