140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:05]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég sé að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er genginn úr þingsal þegar þessi umræða hefst. Ég hef svo sem ekki séð mikið af honum við umræðuna hér í dag nema á opnum fundi hjá Brim hf. aðeins fyrr í dag, en hann er nú í hliðarsal og ég vona að hann fari að gefa sér aðeins meiri tíma til að fylgjast með umræðunni og taka þá eftir atvikum meiri þátt í henni.

Við vorum á fundi hjá útgerðarfélaginu Brimi fyrr í dag þar sem hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon var framsögumaður. Ég hafði rætt við forstjóra Brims fyrir hádegi og spurt hann að því hvort ekki væri svigrúm til að við gætum tekið aðeins til máls þar stutta stund, þingmenn stjórnarandstöðunnar, en hann taldi óæskilegt að úr yrði eitthvert pólitískt karp á þeim fundi eins og hann orðaði það. Við hlustuðum því á hæstv. ráðherra og þegar kom að því að beina spurningum til hans á þessum opna fundi, sem okkur var boðið sérstaklega til, ætlaði ég að fá að spyrja ráðherra en ég fékk ekki einu sinni að reiða fram spurningar til hans. Ekki veit ég hvort um var að ræða eitthvert samkomulag milli hæstv. ráðherra og þeirra hjá Brimi eða hvernig þetta kom til en þannig var alla vega í pottinn búið.

Ég held að það sé heppilegt þegar fyrirtæki taka svo stórpólitísk mál til umræðu, eins og þetta mál er, að fleiri en ein rödd heyrist héðan af þingi vegna þess að vissulega er sáttin ekki hér. Það er eftirtektarvert að hæstv. ráðherra skuli ekki gefa sér meiri tíma til að vera við þessa umræðu en raun ber vitni og er það kannski í samræmi við það hvernig haldið hefur verið á þessu máli af hans hálfu þar sem ekkert samráð hefur verið og mjög lítið verið hlustað á þær athugasemdir og umsagnir sem borist hafa.

Ég las viðtal við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Steingrím J. Sigfússon nú á dögunum, öðru hvorum megin við helgina, þar sem hann fullyrti að frá því að hann tók við í ráðuneytinu um áramót hefðu verið haldnir tugir funda með aðilum þar sem farið hefði verið yfir málið og það skýrt og skoðunum komið á framfæri. Staðreyndin er sú, eins og ég kom inn á í fyrri ræðu minni og verður ekki of oft ítrekað þegar ráðherrann kýs að halla sannleikanum í svona máli, að innan atvinnuveganefndar beindi hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson þeirri spurningu til allra gesta sem komu hvert samráðið hefði verið — þetta á við um fulltrúa launþega, sjómanna, fiskverkafólks sem og fulltrúa útvegsmanna, Landssambands smábátaeigenda, fjármálastofnana og sveitarfélaga — og svarið var alltaf það sama, að ekkert samráð hefði verið haft.

Það kom fram hjá forstjóra Brims í dag hve mörg atriði hefði mátt leysa og hve mikinn misskilning hefði mátt forðast með því að hafa samráðsferlið virkara á þessum tíma — og nú fagna ég því að hæstv. ráðherra er kominn í salinn og ætlar vonandi að gefa sér tíma til að vera hér með okkur. Hann sagði að það hefði mátt leysa mörg mál og skýra margt út sem hefði ekki þurft að verða að þeim ágreiningsmálum sem raun ber vitni ef menn hefðu haft vit á því að setjast niður saman áður en þetta var lagt fram og fara yfir málin.

Við getum til dæmis tekið grundvallaratriði eins og reikniregluna og svo margt annað sem að einhverju leyti er búið að bæta úr í frumvarpinu þó að ekki sé nóg að gert að mínu mati. Hv. þm. Björn Valur Gíslason hafði orð á því að fullt tillit yrði tekið til þess sem sanngjarnt væri að gera. Slíkt verður ekki fundið út nema menn tali saman. Það sem einum finnst sanngjarnt finnst öðrum ósanngjarnt í svona deilumálum og til að ná einhverri niðurstöðu verða menn að setjast niður og reyna að finna sáttaleiðina.

Ég verð að segja að það var heldur aumlegur bragur á þinginu við upphaf þingfundar í morgun þegar við hlustuðum á hv. þingmenn stjórnarflokkanna, Róbert Marshall, Skúla Helgason og Ólínu Þorvarðardóttur, gagnrýna þær aðgerðir sem útvegsmenn á stórum og smáum skipum um allt land hafa gripið til við þær aðstæður sem uppi eru í þeirra málaflokki. Það er ekkert óeðlilegt við það að útvegsmenn kjósi að funda með starfsfólki sínu svipað og forstjóri og eigendur Brims gerðu í dag. Það eru allir í landi, menn koma alls staðar að af landinu af skipum þeirra og sest er yfir þetta í fyrirtækinu. Það átti að vera vinnufundur með öllu þessu fólki fram eftir degi. Það er tækifæri sem býðst ekki oft þegar allir starfsmenn eru í landi að ná þeim öllum saman. Hvað er óeðlilegt við að þetta fólk setjist niður? Af hverju er það ólögmætt að fyrirtæki ákveði að funda með starfsfólki sínu og fara yfir stöðu mála þegar svo mikið ágreiningsmál er uppi og borga því full laun á meðan?

Ummælin voru ómakleg. Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir hafði á orði að verið væri að nota starfsfólkið sem mannlega skildi í þessari baráttu. Hv. þm. Róbert Marshall frekar en Skúli Helgason, eða annar hvor þeirra, talaði um að vinnuveitendum væri skítsama um starfsfólk sitt. Ég gerði athugasemdir við þetta við hæstv. forseta og ég stend við þær athugasemdir. Er þetta sá sáttatónn sem slá þarf í þessu máli þegar hv. þingmenn koma fram með þessum hætti og nota slíkt orðfæri? Ég held ekki, ekki frekar en það orðfæri sem hæstv. forsætisráðherra hefur valið að nota í ummælum sínum um þá sem starfa í þessari stétt. Svo er ýjað að því að verið sé að verja sérhagsmuni en stjórnarliðar standi hins vegar vörð um almannahagsmuni.

Það eru almannahagsmunir að sjávarútvegur sé vel rekinn. Það er grundvallaratriði fyrir íslenskt samfélag að við höfum þann arðbæra sjávarútveg sem við höfum í dag. Auðvitað liggur það í augum uppi að ef greinin er skattlögð, eins og stendur til að gera, mun það óneitanlega hafa áhrif á kjör starfsfólks í þessari stétt. Þetta er ein kaka og það er skipting hennar sem kemur alltaf til álita þegar verið er að semja um launakjör. Það verður minna eftir af kökunni eftir því sem kostnaður útgerða í landinu eykst. Við getum öll sett okkur í þau spor að ákveðið yrði að hafa flatan skatt á alla launþega í landinu. Við gætum þá tekið dæmi af Alþingi. Kæmi það ekki meira við þingmann á almennum launum en hæstv. forsætisráðherra sem er kannski á tvöföldum launum þingmanns ef skatturinn væri flatur á alla? Það yrði auðvitað hlutfallslega meira á þá sem bera minna úr býtum. Nákvæmlega það sama mun gerast í því kerfi sem hér liggur fyrir.

Það er verið að tala um flatan skatt sem er reiknaður út frá einhverri jafnri stöðu í greininni og auðvitað kemur hann miklu verr við þau fyrirtæki sem einhverra hluta vegna eru veikari fyrir. Fyrirtæki geta verið missterk og ástæðurnar að baki því eru margar. Það þarf ekki eingöngu að vera rekstur viðkomandi fyrirtækis sem þar vegur þyngst vegna þess að aðstæður fyrirtækja eru mjög mismunandi. Aðstaðan getur til dæmis verð misjöfn út frá byggðarlegu tilliti. Við getum til dæmis horft á útgerðarmann sem gerir út bát frá Siglufirði og annan sem gerir út frá Bolungarvík. Líkur eru á því að báturinn frá Bolungarvík geti sennilega róið 30–40% fleiri daga en báturinn frá Siglufirði út frá landfræðilegum aðstæðum. Þar er meira skjól fyrir veðrum, fleiri staðir eru til að fara á eftir mismunandi áttum þegar staður fyrir opnu hafi á Norðurlandi er ekki eins vel varinn. Út frá veðurfarslegum aðstæðum er mismunurinn mikill. Eðlilega eru tekjumöguleikar útgerða minni við þannig aðstæður, þær veiða kannski heldur minna og þar með verða tekjurnar minni. Þessi flati skattur sem leggst á getur haft gríðarleg áhrif.

Af þessu hafa sveitarfélög og launþegasamtök miklar áhyggjur. Fram hefur komið mikil gagnrýni af þeirra hálfu á það hvernig unnið var að þessum frumvörpum.

Ég vil nefna ASÍ sem dæmi sem telur í umsögn sinni að allt of langt sé gengið í sértækum aðgerðum og þær komi til með að veikja rekstrargrundvöll sjávarútvegsins. Spurt er að því hvaða áhrif þetta hafi á launahlutfall fiskverkafólks.

Drífandi, stéttarfélag í Vestmannaeyjum, segir afar ámælisvert að engin skoðun hafi farið fram við undirbúning frumvarpsins á áhrifum þess á kjör almenns verkafólks í sterkum sjávarbyggðum þar sem ljóst sé að áhrifin muni koma hvað skýrast fram.

Eining-Iðja skorar á ríkisstjórn Íslands að rannsaka ítarlega hagrænar og félagslegar afleiðingum þeirra breytinga sem frumvörp um stjórn fiskveiða og veiðigjöld munu hafa í för með sér fyrir sjávarbyggðir, sjávarútveg, starfsöryggi og kjör launafólks í greininni.

Það sama heyrum við frá sveitarfélögum víða um land. Ég gríp hér niður í umsagnir, til dæmis frá bæjarstjórn Fjallabyggðar þar sem þess er krafist af ríkisstjórn Íslands og Alþingi að áhrif fyrirhugaðra breytinga á stjórn fiskveiða á viðbótarskattlagningar útgerðanna verði reiknuð út að fullu af hlutlausum aðilum og niðurstöður kynntar opinberlega áður en lengra verður haldið.

Áhyggjur allra þessara aðila — hægt er að telja upp fjölmarga, ég gríp bara niður í örfáar umsagnir — eru á sömu nótum.

Hvað er undirliggjandi í þessum umsögnum? Það er óttinn, óttinn við þau áhrif sem þessi frumvörp munu hafa á byggðir og fyrirtækin í byggðunum. Fram kom á fundum atvinnuveganefndar, í öllu því ferli sem þar hefur verið, að óttinn væri það versta, óttinn væri rót þess að byggðaþróun hefði verið eins og raun ber vitni. Þar var opnað á mjög áhugaverðar hugmyndir um hvernig byggja mætti upp fiskveiðistjórnarkerfi sem tryggði að ákveðin kjölfesta kæmist á í þessum byggðum. Ég held að það sé atriði sem okkur ber skylda til að skoða í framhaldi af þessu, skoða hvernig við getum komið á kerfi sem standi undir því að vera kjölfesta þannig að fyrirtæki og einstaklingar vilji fara í fjárfestingar á þessum stöðum, geti séð framtíð sinni borgið og hún sé tiltölulega traust til lengri tíma litið.

Virðulegi forseti. Er ágreiningur um veiðiskatt? Einn hv. þingmaður kom hingað upp áðan og sagði að stefna Sjálfstæðisflokksins væri óskýr í þeim efnum. Hún er ekki óskýr í þeim efnum. Sjálfstæðisflokkurinn var jú sá flokkur sem stóð fyrir því ásamt Framsóknarflokknum að koma veiðigjaldi á. Veiðigjaldi var komið á og hugmyndin var að byggja upp sátt um sjávarútveg til framtíðar á þeim nótum. Hægt var farið af stað og hefði þurft að þróa þá leið áfram.

Sú pólitíska sátt sem náðist um þá leið á sínum tíma var eyðilögð í umræðunni, fyrst og fremst af núverandi stjórnarflokkum, með ábyrgðarlausum málflutningi, það er ekkert hægt að orða það öðruvísi, með málflutningi þar sem talið var að ganga þyrfti miklu lengra gagnvart íslenskum sjávarútvegi, leggja þyrfti á hann enn þyngri klafa, sægreifarnir og kvótakóngarnir þyrftu að borga enn meira, það gengi ekki að hafa þetta með þessum hætti. Þessi umræða hefur verið mjög skemmandi og oft á villigötum. Við sjáum það best endurspeglast í kosningaloforðum Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar þar sem fara átti fyrningarleiðina og hana átti að fara á mjög skömmum tíma, það átti að ýta henni í gang strax. Þingmenn þess flokks og forusta hans hefur verið á flótta undan eigin tillögum allt þetta kjörtímabil, það er ekki flóknara en svo. Þau hafa verið rekin til baka með allar þær hugmyndir sem fram hafa komið. Það hafur ekki staðið steinn yfir steini í málflutningi þeirra um fiskveiðistjórnarkerfið fram að þessu. Maður veltir því stundum fyrir sér hvort þetta hafi verið gert viljandi eða stafi af vanþekkingu. Hvort tveggja er auðvitað mjög alvarlegt. Það er mjög alvarlegt ef vanþekking forustu þessa flokks og þingmanna er svo mikil að þau hafa ekki áttað sig á því að þessi leið var ófær. Það er ljóst að útskýra hefur þurft málin fyrir sumum þingmönnum, t.d. fyrir þeim sem sitja með okkur í atvinnuveganefnd, til að þeir skilji það sem verið er að fjalla um. Ef þetta er hins vegar viljandi er það ekki síður alvarlegt vegna þess að þá er verið að beita þessu mikilvæga máli, því þjóðþrifamáli sem sjávarútvegurinn er, í pólitískum tilgangi og slíkt er ómerkilegt og gríðarlega alvarlegt gagnvart íslenskri þjóð.

Þetta mun hafa mikil áhrif á fyrirtækin í greininni, um það verður ekki deilt. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra rakti ágætlega í andstöðu sinni við svipaðar hugmyndir fyrir nokkrum árum þau grundvallaratriði sem enn eiga við gegn því að ganga of langt í veiðiskatti. Þetta mun hafa áhrif á fjárfestingargetu fyrirtækjanna og mun þar með koma niður á fjárfestingum þeirra í heimabyggð. Þetta mun hafa áhrif á fjármögnunarmöguleika þeirra, t.d. til kaupa á aflaheimildum til að styrkja útgerðina í heimabyggð. Þetta mun hafa áhrif á möguleika þeirra á framlagi til samfélagslegra þátta en eins og oft hefur komið fram eru sjávarútvegsfyrirtækin burðarásar í að styrkja starfsemi í heimabyggð sinni, sem betur fer. Ég fullyrði að almennt séð er mikil og góð hugsun í flestum útgerðarfyrirtækjum fyrir samfélagslegri ábyrgð, þau hafa mikla samfélagslega ábyrgð þar sem þau eru.

Ég ræddi um það í morgun, undir liðnum störf þingsins, hve mikilvæg starfsemi björgunarsveitanna okkar væri. Ég boðaði að sameiginlegt átak yrði að vera með Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, sem hæfist á næsta ári, til að standa við bakið á þeim í að fara í ákveðið viðhaldsprógramm varðandi björgunarskipaflota okkar. Engir aðrir standa betur á bak við það félag en útgerðarmenn um allt land, þeir standa mjög vel á bak við félagið. Þetta mun hafa mikil áhrif á þessa hluti. Þess vegna erum við í þessum línudansi, við verðum að finna út hvar við getum sett þennan veiðiskatt sem í sjálfu sér er þverpólitísk samstaða um að verði lagður á. Hann verður hins vegar að taka mið af getu og má ekki skerða um of þá þætti sem ég hef hér rakið. Hann verður líka að taka tillit til mismunandi stöðu fyrirtækja sem getur verið af svo mörgum ástæðum, hún getur legið í því hvar fyrirtækin eru staðsett á landinu. Það má ekki vera þannig að öll útgerð fælist frá ákveðnum svæðum. Við verðum að taka tillit til tekjumöguleika fyrirtækjanna. Við verðum að taka tillit til stöðu þeirra. Ef þetta eru ung fyrirtæki sem eru skuldsett, hafa verið að byggja sig upp, verður að taka tillit til þess.

Í ljós hefur komið að staða fyrirtækja í krókaaflamarkinu er slæm. Það hefur í sjálfu sér ekki komið á óvart og eru engar nýjar fréttir. Það er út af því að þessi fyrirtæki hafa fjárfest mikið undanfarin ár vegna breytinga í fiskveiðistjórnarkerfinu. Þess vegna standa þau verr hvað skuldir varðar og þess vegna mega þau síður við nokkrum skerðingum. Það er svo sem tekið ákveðið tillit til þess í breytingum en ekki var lagt upp með það. Gjarnan er talað um að nú sé fjárfestingarþörfin mikil en ekki hafi verið fjárfest hér á árunum 2003–2006. Hæstv. sjávarútvegsráðherra talaði um þetta á fundi hjá Brimi áðan og ekki þvældist hann fyrir þá. Afkoman var nefnilega ekkert góð þá, en fjárfestingar hafa legið niðri síðastliðin ár vegna þeirrar óvissu sem núverandi ríkisstjórn hefur skapað greininni (Forseti hringir.) og ekki af neinni annarri ástæðu. (Forseti hringir.) Það er auðvitað mjög alvarlegt að sú uppsafnaða fjárfestingarþörf greinarinnar sem við gætum séð verða (Forseti hringir.) til þess að skapa blómstrandi mannlíf og mikla atvinnu (Forseti hringir.) fari í skattheimtu.