140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:27]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja það um samþingmenn mína úr stjórnarflokkunum í atvinnuveganefnd að þeir eru ákaflega misjafnir þegar kemur að þessu máli. Formaður nefndarinnar hefur stýrt fundum af röggsemi og þeir hafa gengið vel. En það er misjafnt hljóð í mönnum þar úr stjórnarliðinu, aðrir tala af meiri skynsemi en hinir, ég verð að segja það alveg eins og er, virðulegi forseti.

Eru þetta gjöld eða skattur? Það er ekki hægt að tala um þetta öðruvísi en sem skatt. Alla vega er það niðurstaða sérfræðinga að umræða um auðlindagjöld eigi ekki við í þessu tilfelli eins og þetta er útfært og það þarf að breyta þá hlutum til að hægt verði að kalla þetta slíkt.

Ég vil taka undir með hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra því að mér er tíðrætt um hann og hans fyrri skoðanir í þessu máli. Hann sagði í ræðu fyrir nokkrum árum, með leyfi forseta:

„Álagning veiðigjalds er einhvers konar brúttóskattur eða veltuskattur. Við höfum verið að hverfa frá því að leggja á veltuskatta.“

Hann talaði hér um skatta. Hann sagði að þetta væri sérstakur skattur á eina atvinnugrein og í ljósi þess að fjölmargar atvinnugreinar nýta með einum eða öðrum hætti sameignir þjóðarinnar án þess að því fylgi sérstök skattlagning væri útilokað að leggja þennan skatt á sjávarútveg eingöngu.

Þetta hefur ítrekað komið fram í ræðum þingmanna, m.a. ræðu formanns atvinnuveganefndar. Honum var tíðrætt um skattheimtu. Við skulum bara kalla þetta það sem þetta er, þetta er skattur en við hugsum hann sem einhvers konar veiðigjald eða veiðiskatt. Það er kannski meginmálið að um það var niðurstaða í sáttanefndinni á sínum tíma að einhvers konar (Forseti hringir.) veiðiskattur eða veiðigjald yrði lagt á þessa grein sérstaklega. En það er vandmeðfarið hvernig efnt verður.