140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:30]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þetta svar. Eins og ég fór yfir áðan er um grundvallarmismun að ræða hvort þetta er skattur eða gjöld, sem sýnir jafnvel hversu illa frumvarpið er unnið frá upphafi vegna þess að þar er ýmist talað um veiðigjald eða skatt. Ég veit ekki hvort það er til komið vegna ósættis í ríkisstjórnarflokkunum, að vísu hafa Vinstri grænir ekki veiðigjald á stefnuskrá sinni en þeir vilja fá einhvers konar auðlindarentu. Í frumvarpinu kemur fram að ríkisstjórninni verði treyst til að skipta því út hvernig þetta eigi að vera. Svo er sagt að það sé þjóðarinnar að ávaxta og fá hlutdeild í þessari auðlind en í hinu orðinu er talað um að nota eigi þá skatta eða gjöld sem koma út úr þessu í gæluverkefni ríkisstjórnarinnar.

Mig langar að benda á að það er stórhættulegt að fikta mikið í skattkerfinu. Mér skilst að ríkisstjórnin sé búin að breyta skattkerfinu hér 170 sinnum eftir að hún tók við völdum. Ég fékk svar frá hæstv. fjármálaráðherra í gær, sem ætlaði aldrei að berast mér hingað í þingið. Ég lagði fram fyrirspurn í mars á þessu ári og minni á að það eiga að líða ellefu virkir dagar þar til svar berst. Þar kemur í ljós að eftir að hæstv. þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, fór fram með breytingar á virðisaukaskattskerfinu 2009 hafa tekjur ríkissjóðs á þessum þremur árum farið úr 32 milljörðum af innlendum virðisaukaskatti niður í mínus 9 milljarða en kerfið á alls ekki að geta virkað í mínus. Þarna vantar rúma 40 milljarða upp á virðisaukaskattstekjur ríkissjóðs. Ég segi því við þingmenn og hæstv. ríkisstjórn: Gangið hægt um (Forseti hringir.) gleðinnar dyr, að hræra svona mikið í skattkerfinu.