140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:46]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Fari þeir sem fara vilja og komi þeir sem koma vilja, sagði einhver, forseti góður.

Hv. þingmaður nefndi það áðan að ef hann ætlaði að setja á stofn blómabúð væru engin takmörk fyrir því sem hann vildi gera. En ef ríkisstjórn Íslands eða stjórnvöld og Alþingi væru búin að setja takmörk á fjölda blómabúða í landinu af einhverjum ástæðum eins og gert var varðandi nýtingu fiskstofna, þyrfti hv. þingmaður að kaupa sig inn í þann atvinnurekstur, það eru alveg hreinar línur. (Gripið fram í: Af hverjum?) Af þeim sem væru þar starfandi fyrir.

Hv. þingmaður sagði í grein sem hann skrifaði fyrir allnokkru:

„Útgerðarfyrirtæki sem sýnt hafa mestu samfélagslegu ábyrgðina, mestan virðisaukann og mestu byggðafestuna, eiga auðvitað að njóta forgangs.“

Finnst hv. þingmanni það frumvarp sem hér er til umræðu um veiðiskattinn mæta þessum sjónarmiðum sem hann setti fram í rituðu máli fyrir örfáum missirum síðan?