140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:49]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég man ekki eftir því að ég hafi orðað þetta þannig en ég hef talað fyrir því annars vegar að hækka veiðileyfagjaldið og koma eðlilegum hluta af framlegðinni, umframhagnaðinum til þjóðarinnar, ekki endilega til ríkisins heldur þjóðarinnar.

Ég hef talað fyrir því að takmarka framsalið að einhverju leyti en það er ekki endilega samhengi þarna á milli. Framsal upp að ákveðnu marki er eðlilegur partur af hagræðingu greinarinnar, ég hef alltaf talað fyrir því. Ég hef líka talað fyrir því að það eigi að vera eðlileg veð innan greinarinnar, einfaldlega vegna þess að þannig gerist það á öðrum markaði. Menn stofna leigubílastöð upp á sömu býti. Það er hið varanlega framsal sem ég hef gagnrýnt en ekki það eðlilega framsal sem lýtur að skiptingu á fisktegundum milli útgerða, (Forseti hringir.) hvað þá innan sömu útgerðarinnar.