140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spurði um skilgreiningu á orðinu sérhagsmunir, orði sem margir hv. stjórnarliðar hafa tekið sér í munn í þessari umræðu, og hvort það gætu talist sérhagsmunir sem mörg hundruð manna fundur í Vestmannaeyjum ályktar um.

Nei, ég er ekki þeirrar skoðunar að það geti talist sérhagsmunir. Það hljóta að vera hagsmunir samfélagsins sem þessi fundur snerist um. Raunar virðast sérhagsmunir, eins og orðið er notað í þessari umræðu, vera skilgreindir þannig að allt annað en hagsmunir Samfylkingarinnar séu sérhagsmunir. Ef menn eru ekki að gæta hagsmuna Samfylkingarinnar eða þeirra leiða sem hún telur rétt að fara þá eru þeir að gæta sérhagsmuna, það eru hins vegar almannahagsmunir ef menn tala máli Samfylkingarinnar.

Þetta minnir okkur náttúrlega dálítið á hvernig menn nálguðust hlutina í löndum Mið- og Austur-Evrópu stóran hluta 20. aldarinnar. Þá voru það óvinir alþýðunnar, óvinir ríkisins jafnvel, sem gagnrýndu stjórnvöld vegna þess að stefna stjórnvalda var samkvæmt skilgreiningunni stefna sem varðaði almannahagsmuni, jafnvel þó það væri ekki svo í raun. Við virðumst svolítið vera komin inn á sömu braut í umræðunni um þetta mál, að raunveruleikinn sé eitt en skilgreiningar stjórnvalda á hugtakanotkun sinni allt annað.

Hv. þingmaður nefndi líka hversu sveiflukennd afkoma í greininni væri og að ekki væri tekið mið af því í þessum tillögum. Það er hárrétt og ekki nóg með það heldur virðist í þessum tillögum beinlínis gert ráð fyrir því að gengi krónunnar verði áfram lágt og lækki jafnvel enn frá því sem nú er. Þannig að stjórnvöld eru með þessum tillögum að gefa það út að þau ætlist til þess að gengi gjaldmiðilsins verði lágt um ókomna tíð.