140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:20]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held einmitt að umræðan sé á algjörum villigötum þar sem hún byrjar á rangan hátt. Í margnefndri greinargerð Daða Más Kristóferssonar og Stefáns B. Gunnlaugssonar er til dæmis sagt varðandi vinnsluna að mörg vandamál fylgi því að meta auðlindarentu vinnslu með rentu veiða, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Það stendur líka að núverandi gagnagrunnlag leyfi ekki nákvæmt mat á auðlindarentu.

Eins og hv. þingmaður þekkir benti Daði Már Kristófersson á að það væri að sínu mati einfaldara að fara þá leið að setja viðmiðunarverð á viðskipti milli tengdra aðila og byggja álagninguna algjörlega á gögnum um veiðar eins og jafnan er gert við álagningu auðlindarentu. Bent er á að hugsanlega sé sú renta sem síðan verður skattlögð verulega ofmetin, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Betur hefði farið á því að fjármagnsþörfin yrði metin af sérfræðingum á grundvelli markaðsgagna eins og bent var á og gert er ráð fyrir þegar um flutning og dreifingu á rafmagni er að ræða, samkvæmt raforkulögum. Menn hafa ekki horft til fyrirmyndanna sem þó eru til í íslenskum lögum varðandi til dæmis raforkulögin og síðan olíuauðlindina ef af verður, þ.e. kolefnisskattlagninguna.

Ég held að hægt sé að fullyrða að grunnumræðan hafi orðið að karpi um aðferðafræði, sem allir eru sammála um að sé léleg, frekar en að rætt sé um það hvernig hægt sé að reikna út rentuna og við hvað sé eðlilegt að greiða gjald af og miðað þá við þær tölur sem (Forseti hringir.) menn fá út úr því í staðinn fyrir að miða við gömul gögn (Forseti hringir.) eða meðaltalsgögn eins og áður hefur verið nefnt í þessari pontu.