140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:25]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Það var gott að hlýða á mál hans enda liggur hér fyrir nefndarálit frá 2. minni hluta atvinnuveganefndar sem hv. þingmaður skipar, sem er ítarlegt og gott að lesa yfir.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um nokkur hugtök sem flutningsmenn þessa máls og þingmenn ríkisstjórnarflokkanna tala oft um þegar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu eru ræddar og þar á meðal þetta mál.

Talað er um að verið sé að gera breytingar á kerfinu með það að markmiði að koma á meira réttlæti. Jafnframt hafa menn talað um að nú eigi að ná sátt um sjávarútvegsmál í landinu og allt sé þetta gert með almannahagsmuni í huga. Ég sé ekki alveg hvernig þetta frumvarp sem og hitt, stóra frumvarpið, sem enn er fast í nefnd af því að meiri hlutinn kemur sér ekki saman um hvernig eigi að afgreiða það, eiga að uppfylla þessi markmið.

Ef við einbeitum okkur í þessu litla andsvari bara að sáttinni þá er það almennt þannig að þegar menn ætla að ná sátt um einhver umdeild mál eða mál sem varða mikla hagsmuni fá þeir alla aðila að borðinu, láta þá setjast niður og reyna að finna einhverjar leiðir þegar búið er að skilgreina í hverju vandinn felst eða í þessu tilviki óréttlætið, eins og hv. stjórnarliðar halda fram. Í þessu máli virðist hreinlega hafa verið forðast að hafa samráð, alla vega miðað við nefndarálit hv. þingmanns þar sem fram kemur að umsagnaraðilar hafi svarað ítrekuðum spurningum hans á þann veg að ekkert samráð hafi verið haft við þá og ekki við neinn. Þá spyr maður: Hvernig á að ná sátt með þeirri aðferð? Telur hv. þingmaður að þetta sé fær leið með slíkt markmið í huga?