140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:29]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Takk fyrir þetta. Það er annað sem töluvert hefur verið rætt um og það er að þetta sé allt gert í þágu almannahagsmuna. Þá vakna heldur betur spurningar, alla vega í mínum kolli.

Við erum öll á sama báti, við sem byggjum þetta land, og sjávarútvegurinn er okkar undirstöðuatvinnugrein. Varðandi þær breytingar sem meri hlutinn leggur til liggja fyrir álitsgerðir frá fjölmörgum, lögmönnum og okkar helstu sérfræðingum í sjávarútvegsmálum svo og sveitarstjórnum víða um land. Allar eru þær í sömu áttina, að þarna sé verið að ganga of nærri byggðunum í landinu sem og fyrirtækjunum með þeim afleiðingum að þau muni hugsanlega mörg hver ekki ráða við þetta. Þar af leiðandi er því spáð að einhver þeirra muni fara á hausinn.

Hvernig er hægt að setja fram tillögur sem þessar og rökstyðja þær þannig að um almannahagsmuni sé að ræða? (Forseti hringir.) Að mínu viti gengur þetta þvert gegn hagsmunum landsmanna.