140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:50]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir þessi andsvör. Mig langar að benda á að í þessu frumvarpi er þó komið til móts við þær athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA að lánastarfsemi til fyrirtækja, svo sem byggingarverktaka, hafi ekki samræmst reglum og það er eingöngu til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. Það er þá á þessum félagslegu nótum sem heimilt er að veita lánið þannig að hvað varðar leigumarkaðinn er líka komið til móts við athugasemdirnar.

Það er þó kannski enn eitt umhugsunarvert í þessu sem engin breytingartillaga hefur komið fram um enn og menn hafa heldur ekki mikið rætt en mig langar til að vekja athygli á. Það er talað um að vaxtakjörin til slíkra fyrirtækja, sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka á leigumarkaði skuli ákveðin af ríkisstjórn. Það er dálítið sérstakt að það skuli standa í frumvarpi vegna þess að fjárveitingavaldið er hjá Alþingi og þá ætti að koma fram breytingartillaga við 3. umr., en ekkert okkar hefur svo sem komið fram með hana, um að vaxtakjör séu ekki háð samþykki ríkisstjórnar heldur sé það fjárveitingavaldið Alþingi sem þar ráði för.