140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:13]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þetta snýst ekki um Vaðlaheiðargöng í sjálfu sér heldur snýst þetta um það hvernig Alþingi og stjórnvöld afgreiða mál. Það er verið að aftengja lög um ríkisábyrgðir og aftengja lög um fjárreiður ríkisins til að þóknast þingmönnum kjördæmis á Norðausturlandi. Það er verið að fara þvert gegn áliti Ríkisábyrgðasjóðs sem varaði meðal annars við Íbúðalánasjóði sem hefur kostað skattgreiðendur 33 milljarða, hann varaði við Farice og Lánasjóði landbúnaðarins sem hefur kostað skattgreiðendur stórfé. Ríkisábyrgðasjóður varar við Vaðlaheiðargöngum.

Forstöðumaður lánamála ríkissjóðs gekk fram fyrir skjöldu opinberlega þegar ljóst var hvert fjárlaganefnd stefndi með málið og gagnrýndi rækilega í blaðagrein hvað er athugavert við það. Það eitt utan allra annarra varúðarorða ætti að nægja til að þingið hugsaði sig um. Hér er Alþingi hugsanlega að fara að kasta fyrir róða sérfræðiáliti helsta eftirlitsaðila ríkissjóðs og Alþingis (Forseti hringir.) í fjárreiðum ríkisins. Það er skömm að því ef Alþingi ætlar að afgreiða málið með þessum hætti. Það er endurtekning á deCODE-ábyrgðinni hér um árið.