140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:06]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Þetta hefur verið talsvert löng umræða um IPA-styrkina þegar saman er tekið og henni er haldið áfram hér í dag. Það hefur mjög margt verið sagt um aðlögunarstyrki Evrópusambandsins frá því umsókn um aðild að Evrópusambandinu var lögð fram á sínum tíma. Ég tel að með þessu máli sé orðið endanlega ljóst að þeir þingmenn og flestir ráðherrar Vinstri grænna sem í upphafi sögðu að þeir mundu enga aðlögun samþykkja eða taka við nokkrum fjármunum sem tengdust nauðsynlegri aðlögun Íslands að Evrópusambandinu, hafi einfaldlega gengið á bak orða sinna með því að reka á eftir þessu máli í gegnum þingið.

Þegar maður veltir því hlutlægt fyrir sér hvers vegna Evrópusambandið ætti yfir höfuð að leggja umsóknarríkjum til jafnháar fjárhæðir eins og á við í þessu máli blasir svarið við. Það er til að styðja við og hraða aðlögunarferlinu og til að tryggja að löggjöf og stofnanaumgjörð, tölvukerfi og upplýsingakerfi sem þarf að vera til staðar, sé í sem bestu ástandi og í sem bestu samræmi við þær væntingar og þarfir sem hið sameiginlega regluverk krefst.

Sum þeirra verkefna sem hér er verið að horfa til hefðu eflaust á einhverjum tímapunkti komið til framkvæmda, m.a. vegna aðildar okkar að EES-samningnum. Það er hins vegar augljóst að sumum er verið að flýta. Það er líka augljóst að menn standa frammi fyrir talsvert vandasamri stöðu, jafnvel siðferðilega vandasamri stöðu, sérstaklega þeir sem hafa ekki sannfæringu fyrir því að við eigum að vera í aðildarviðræðum og við eigum ekki erindi inn í Evrópusambandið. Þeir þurfa að gera upp hug sinn til þess hvort það sé siðferðilega rétt að taka við öllum þessum fjárhæðum á sama tíma og þeir hafa ekki sannfæringu fyrir því að rétt sé að vera í aðildarviðræðunum sem eru forsenda þess að fjármunirnir standa til boða. Þetta er dálítið flókin staða. Maður skynjar það á þrýstingnum sem hefur verið á þessu máli, bæði á þinginu og utan úr stjórnkerfinu og víðar, að til staðar virðist vera gríðarlega mikill freistnivandi, freistingin að taka fjármunina og nota þá í góð mál. Freistingin er fyrir suma greinilega óbærileg og setur mjög mikinn þrýsting á að málið fái afgreiðslu á þinginu.

Mér finnst ekki annað hægt en að vekja athygli á því að svona er í pottinn búið, nú þegar málið er komið á þetta stig í þinginu. Undirliggjandi í þessu máli eru gríðarlega háar fjárhæðir sem okkur standa til boða einungis vegna þess að umsóknin var lögð fram. Þeir eru í einkennilegri stöðu, þeir sem hafa í aðra röndina mælt gegn því að við værum í aðildarviðræðum og hafa ekki viljað ganga í Evrópusambandið, en mælast síðan til þess í hina röndina að við tökum fjármunina og notum þá í eitthvað uppbyggilegt. Mér finnst vera meiri reisn yfir því að standa sjálf undir þeim kostnaði sem til fellur vegna okkar sameiginlegu verkefna. Ég verð að segja það fyrir mitt leyti. Það er það sem ég vildi að kæmi fram í umræðunni áður en henni lýkur.