141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[13:32]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mun fara örfáum orðum um fjárlagafrumvarpið og einkum þá þætti sem snúa að innanríkisráðuneytinu. Í upphafi vil ég minna alla sem á hlýða á þá staðreynd að við höfum lifað mjög óvenjulega tíma á Íslandi. Við upplifðum efnahagshrun, en í aðdraganda þess höfðu skattar verið lækkaðir verulega, einkum á tekjuhærri hluta samfélagsins, jafnframt því sem útgjöld hins opinbera voru þanin út og á það jafnt við um ríki og sveitarfélög.

Hvernig stóð á því að þetta var hægt? Jú, vegna gríðarlegrar lántöku inn í samfélagið utan að jókst neyslan í þjóðfélaginu og þar af leiðandi öll umsvif og velta sem varð til þess að tekjur hins opinbera jukust hröðum skrefum. Við innflutning á bílum, svo dæmi séu tekin, fór umtalsverður hluti kaupverðsins í ríkissjóð. Það átti einnig við um aðra þætti. Við efnahagshrunið varð síðan mikil breyting á þessu. Það dró snarlega úr tekjum ríkissjóðs og sveitarfélaganna. Þar varð í reynd hrun.

Hvað átti að gera til að bregðast við þessu? Jú, það var nauðsynlegt að gera tvennt, að draga verulega úr útgjöldum ríkissjóðs og sveitarfélaganna en jafnframt hækka skatta, auka tekjuflæðið í ríkissjóð og sveitarsjóðina. Það var reynt að finna blöndu sem væri félagslega ásættanleg. Menn geta deilt um hvernig tekist hafi til í því efni og áherslur mismunandi hvað blönduna snertir en niðurstaðan varð engu að síður sú að okkur tókst að draga verulega úr hallarekstri hjá ríkinu.

Á árinu 2009 nam hallinn á ríkisbúskapnum 215 milljörðum kr. Í ár er þessi halli 22 milljarðar. Við erum ekki komin niður í núll en okkur hefur orðið ágengt hvað þetta snertir.

Hins vegar má spyrja hvernig til hafi tekist annars vegar að verjast niðurskurðinum, þá er ég að vísa til starfsemi og stofnana innan samfélagsþjónustunnar, og hins vegar að hvaða marki okkur hafi tekist að bregðast við með hagræðingu, þ.e. að nýta fjármunina á hagkvæmari hátt en áður var. Ég held að þetta hafi tekist ágætlega á ýmsum sviðum en hinu er ekki að leyna að starfsemin hefur víða verið skorin inn að beini. Þar erum við stödd í dag, við erum núna með fjárlög til afgreiðslu við aðstæður sem eru miklum mun betri en áður var að því leyti að nú virðist hin efnahagslega sól fara hækkandi og við sjá fram á bjartari tíð.

Þess vegna er horfið frá miklum niðurskurði sem einkennt hefur fjárlög undangenginna ára og farið að búa í haginn fyrir uppbyggingu. Þegar gengið var frá fjárlögum í byrjun sumars, í júníbyrjun, lágu ekki fyrir allar upplýsingar um tekjur og útgjöld sem venjan er að ráðuneytin hafi til hliðsjónar við gerð fjárlaganna. Fram til þessa hafa fjárlögin verið síðar á ferð en nú er, síðsumars, og þá hafa menn betur haft hið peningalega landakort fyrir augum. Það höfðum við ekki í byrjun sumars. Þess vegna var ákveðið að bíða þar til hagspá lægi fyrir, seinna í haust, með endurskoðun á þeim ramma sem hér er kynntur með þá hugsun að leiðarljósi að ríkisstjórnin endurskoðaði í samráði við þingið ýmsa liði sem hér eru settir fram. Mér finnst mjög mikilvægt að halda því til haga að nú er að hefjast vinnan með fjárlögin. Við höfum rammann. Við höfum ásetning ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans um að halda áfram á þeirri vegferð sem hafin var, að reyna að ná hallalausum fjárlögum inn í framtíðina, það er okkar markmið, en jafnframt að hlífa samfélagsrekstrinum, einkum hinum viðkvæmasta, í heilbrigðisþjónustunni, löggæslunni og svo framvegis. Ég vænti góðs (Forseti hringir.) samstarfs við þingið, bæði stjórnarmeirihluta og ekki síður stjórnarandstöðu, um endanlega gerð fjárlaganna.