141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:21]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er þannig að við erum með tiltekna fjármuni til ráðstöfunar til samgöngumála. Spurningin er: Viljum við auka þá fjármuni? Ætlum við þá að hækka skatta? Ætlum við að fara í gjaldtöku á umferðina? Hvað ætlum við yfirleitt að gera? Ætlum við að ráðstafa fjármununum á einhvern annan hátt en við höfum gert?

Það sem við höfum horft til núna er að fara þá leið sem ég hef lýst áður og er okkur öllum kunn og hv. þingmaður vísaði til, þ.e. að efla almenningssamgöngur. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður sagði að rándýrar framkvæmdir eru ekki endilega ávísun á slysalaust umhverfi. Það er alveg rétt. Sú var tíðin að menn lögðu höfuðáherslu á mislæg gatnamót. Hvað skyldu þau kosta? Mislæg gatnamót kosta um 2 milljarða kr. Það eru miklir peningar. Ef við ætlum að ráðast í slíkar framkvæmdir, Sundabraut og göng voru einhvern tímann á dagskrá undir Miklubrautina, þá kostar það mikla peninga. Við höfum ekki þá fjármuni.

Núna þurfum við að forgangsraða og ætlum að forgangsraða í þágu öryggisins, (Gripið fram í: Spítalinn.) í þágu almenningssamgangna, gangandi umferðar, hjólreiðaumferðar og almenningsvagna.

Spítalinn, segir hv. þingmaður. Ég vil færa þá spurningu út og horfa til alls svæðisins. Ég vil horfa til Vatnsmýrarinnar. Þeir sem tala fyrir því að þar verði reist byggð og flugvöllurinn tekinn brott — halda menn að þar verði allir bara á hjólum eða gangandi eða vinni í Kvosinni? Nei, það mun kalla á bílaumferð líka. Ég vil taka undir með hv. þingmanni að þegar við skoðum Reykjavík og samgöngur verðum við vissulega að horfa til spítalans, stórra vinnustaða, og huga þannig að samgöngum. Ég tek alveg undir það. Það er ekkert bann sem hefur verið (Forseti hringir.) reist við því að við hugsum skynsamlega í þessum efnum og grípum til þeirra ráðstafana sem þörf er á í samræmi við breyttar aðstæður með nýjum mannvirkjum eins og Landspítalanum.