141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:43]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi innanlandsflugið er alveg rétt að það er gert ráð fyrir 45 millj. kr. auknu fjármagni til þess. Það er í reynd til að halda í horfinu. Kostnaður hefur farið upp, einkum vegna hækkunar á eldsneyti. Þar þurfum við að súpa seyðið af gengisþróun ef við berum okkur saman við skilyrði flugsins fyrir nokkrum árum. Síðan vek ég athygli á því að stuðningur við flugið mótast af fyrri áherslum í samgönguáætlun sem byggði á því að leggja ætti höfuðkapp á að landsbyggðarfólk kæmi til höfuðborgarsvæðisins innan tiltekinna tímamarka. Þegar samgöngubætur bötnuðu á landi dró úr stuðningnum við flugið. Þetta gerðist síðan með Sauðárkrók, Vestmannaeyjar og fleiri staði á landinu. Þegar Héðinsfjarðargöngin komu til sögunnar og Siglfirðingar gátu farið til Akureyrar dró það úr vægi Sauðárkróks.

Ég er ekki viss um að til langs tíma sé þetta endilega rétt stefna, enda hefur áherslum samgönguáætlunar verið breytt að þessu leyti. Í stað þess að leggja höfuðáherslu á samgöngur við höfuðborgarsvæðið er núna horft til samgangna innan einstakra svæða, síðan á milli þeirra og höfuðborgarsvæðisins hér. Þetta var um flugið.

Varðandi sóknargjöldin lét ég gera könnun á þróun þeirra. Þá kom í ljós að þau höfðu verið látin sitja á hakanum og ekki staðið við það framlag sem löggjafinn hugsaði sér upphaflega, það hafði verið skert meira. Af hálfu ráðuneytisins var engin skerðing á sóknargjöldunum, en (Forseti hringir.) hvað uppfærslu þeirra áhrærir voru þau látin fylgja verðlagsþróun. Það var hins vegar gagnrýnt af hálfu kirkjunnar og sóknanna og sagt að eðlilegra (Forseti hringir.) hefði verið og í samræmi við eldri venjur að láta þau fylgja tekjuskattsstofni sem hefði verið ívið meira.