141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[15:10]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra svörin og heiti því að halda þessari umræðu áfram með henni þótt síðar verði.

Í síðari hálfleik þessara orðaskipta langar mig að spyrja um sértækan hlut sem er úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þær tölur sem nefnt er að fari til hennar í þessu frumvarpi eru nokkurn veginn þær sömu og nefndar voru í fyrra. Fjárveitingin hefur sumsé ekki hækkað. Ég veit að vísu til þess að til stendur í fjáraukalögum í haust að biðja þingið um fjárveitingu fyrir ákveðnum liðsauka sem úrskurðarnefndinni var boðinn á þessu ári en ekki er gert ráð fyrir að sá liðsauki, sem ég hygg að séu tvær stöður lögfræðinga, haldi áfram árið 2013. Þetta er galli vegna þess að úrskurðarnefnd er ný. Hún tók við nefnd sem hafði mikinn hala mála sem voru mjög þung í afgreiðslu. Það var ekki nefndinni sjálfri að kenna heldur umbúnaðinum um hana. Það sem gerst hefur síðan er ekki bara það að nýja nefndin tók við af tveimur öðrum nefndum sem áður höfðu starfað heldur hafa verið sett á hana verkefni í tiltölulega nýlegum lögum um umhverfisábyrgð og í aðeins eldri lögum um loftslagsmál. Þau verkefni eru að vísu ekki komin til hennar enn þá en gætu orðið erfið og þung þegar fram í sækir.

Ég talaði við stjórnanda þessarar nefndar og hann sagði mér m.a. að sú áætlun um 30% aukningu á störfum hinnar nýju nefndar, sem umhverfisráðuneytið og fjármálaráðuneytið drógu niður í 20% í fjárveitingu í fyrra, væri núna komin upp í 50%. (Forseti hringir.) Þetta vekur áhyggjur, ekki bara nefndarinnar vegna heldur líka vegna þess mikilvæga starfs sem hún vinnur og vegna (Forseti hringir.) þeirrar gagnrýni sem hún og umhverfismál hafa orðið fyrir vegna tafa og seinagangs í nefnd.